Bæjarstjórn Vestmannaeyja fundaði í gær en einungis eitt mál var á dagskrá, “Breytingar á útsvari sveitarfélaga og tekjuskatti einstaklinga vegna fjármögnunar á þjónustu við fatlað fólk.” Umtalsverð aukning hefur orðið á útgjöldum sveitarfélaga varðandi þjónustu við fatlað fólk, sem skýrist m.a. af auknum kröfum ríkisins um bætta þjónustu við umræddan hóp. Allt frá árinu 2010, þegar ríkið og sveitarfélög náðu samkomulagi um tilfærslu málaflokksins frá ríki til sveitarfélaga, hefur átt sér stað vinna við mat á kostnaði við þjónustuna og nokkrar breytingar gerðar á skattalöggjöf til að mæta kostnaðaraukningu sveitarfélaga vegna þessa. Meðal annars voru gerðar breytingar á skattalöggjöfunni árið 2015, með svokölluðu endanlegu samkomulagi milli ríkisins og sveitarfélaga. Síðan þá hefur útgjaldaaukningin aukist enn frekar, sem skýrist af talsverðum breytingum á löggjöf og regluverki um þjónustu við fatlað fólk.
Í ljósi þess hversu umfangsmikill útgjaldavandinn er orðinn hafa stjórnvöld og sveitarfélög náð samkomulagi um að gera breytingu á endanlega samkomulaginu frá árinu 2015 og flytja 5 ma.kr. frá ríki til sveitarfélaga á árinu 2023 í því skyni að bæta rekstrarafkomu sveitarfélaga og gera þeim betur kleift að standa við markmið sín um afkomu, skuldaþróun og rekstur málaflokksins. Samkomulag ríkis og sveitarfélaga er dags. 16. desember 2022.
Útsvar sveitarfélaga, sem í tilviki Vestmannaeyjabæjar er nú 14,46%, verður hækkað um 0,22% samhliða lækkun tekjuskatts einstaklinga um samsvarandi hlutfall í öllum skattþrepum einstaklinga. Gert er ráð fyrir að hlutdeild Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í útsvari aukist til jafns við hækkun hámarksútsvars.
Staðgreiðsla skatta einstaklinga samanstendur annars vegar af útsvari, sem rennur til sveitarfélaga og hins vegar tekjuskatti einstaklinga, sem rennur til ríkissjóðs. Þar sem að ríkið mun lækka tekjuskattsálagningu sína um samsvarandi hlutfall og útsvarshækkunin nemur munu skattgreiðendur hvorki verða fyrir skattahækkun eða lækkun vegna þessa.
Umræddar skattabreytingar taka gildi árið 2023 og sveitarstjórnir þurfa að samþykkja og tilkynna fjármálaráðuneytinu í síðasta lagi 30. desember nk. um hækkun útsvarsálagningar.
Niðurstaða bæjarstjórnar um málið var afgreidd á eftirfarandi hátt og samþykkt samhljóða með níu atkvæðum bæjarfulltrúa. “Með vísan til ákvæða varðandi breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk í fyrirliggjandi samkomulagi á milli ríkis og sveitarfélaga, dags. 16. desember 2022, er byggir á breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi sama dag, samþykkir bæjarstjórn Vestmannaeyja hækkun útsvarsálagningar um 0,22%, úr 14,46% í 14,68%, gegn því að ríkið lækki tekjuskatt einstaklinga um sama hlutfall, þannig að breytingin hafi engin áhrif á staðgreiðslu einstaklinga (launaskatt).
Sveitarstjórnir þurfa að samþykkja og tilkynna fjármálaráðuneytinu í síðasta lagi 30. desember nk. um hækkun útsvarsálagningar ef þau ætla koma skaðlaus frá því að þetta sama hlutfall verði tekið af útsvarsálagningu sveitarfélagsins og látið renna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Ef sveitarstjórnir kjósa að hækka ekki útsvarsálagninguna um þetta hlutfall, mun það engu að síður verða tekið af útsvarsálagningu sveitarfélagsins og fært til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og þar með lækka þær útsvarstekjur sem renna til sveitarfélagsins.”
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst