„Þegar ráðherrar eru farnir að gagnrýna hvern annan í fjölmiðlun er stjórnarsamstarfið orðið ansi súrt og enginn eftir til að verja ríkisstjórnarsamstarfið út kjörtímabilið. Það kom mér því ekki á óvart að forsætisráðherra hafi ákveðið að segja þetta gott og boða kosningar hið fyrsta,“ segir Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi þegar hún var beðin um að meta stöðuna sem upp er komin eftir að Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra ákvað að slíta stjórnsamstarfi Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri grænna.
„Hvort hann fær að ráða þeirri för einn er ekki ljóst þegar þetta er skrifað. Hugsanlega vilja hinir oddvitarnir hafa eitthvað um þetta að segja og því ekki alveg víst að kosið verði 30. nóvember. Við í Samfylkingunni fögnum því að fólk fái að kjósa sem fyrst og teljum að í því felist dýrmætt tækifæri til að mynda ríkisstjórn undir forystu jafnaðarmanna. Nóg er af mikilvægum óleystum málum sem þarf að lenda farsællega. Ég tel það augljósan hag almennings að Samfylkingin – jafnaðarflokkur Íslands fái góða kosningu og að niðurstaðan verði söguleg í fleiri en einum skilningi,“ segir Oddný.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst