Heimgreiðslur voru til umfjöllunar á síðasta fundi fræðsluráðs Vestmannaeyja. Þar kynnti Helga Sigrún Þórsdóttir, deildarstjóri fræðslu og uppeldismála nýtingu á heimgreiðslum síðustu ár og það sem af er þessu ári.
Í niðurstöðu segir að fræðsluráð leggi til að fyrirkomulag heimgreiðslna haldist óbreytt en að viðmiðunartekjur breytist í upphafi hvers árs um sömu prósentu og almennir rekstrarþættir sveitarfélagsins skv. fjárhagsáætlun, fyrst árið 2026.
Þriðja greinin í reglum Vestmannaeyjabæjar um heimgreiðslur verður því eftirfarandi;
Heimgreiðslur eru tekjutengdar og miðast við heildartekjur heimilis. Miðað er við meðaltekjur sl. þriggja mánaða skv. staðgreiðsluskrá og að þær séu undir kr. 1.050.000 á mánuði. Viðmiðunartekjurnar breytist í upphafi hvers árs um sömu prósentu og almennir rekstrarþættir sveitarfélagsins skv. fjárhagsáætlun. Séu heildartekjur heimilis undir viðmiðunarfjárhæð geta forráðamenn sótt um heimgreiðslur sem nema mismuni á heildartekjum heimilis og viðmiðunartekjum. Heimgreiðslur eru þó aldrei hærri en kr. 220.000 fyrir fyrsta barn og kr. 110.000 fyrir annað barn. Ekki eru greiddar heimgreiðslur fyrir júlí. Skila þarf með umsókn staðfestu yfirliti sl. þriggja mánaða úr staðgreiðsluskrá.
Í bókun fulltrúa D listans segir að undirritaðar (Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Halla Björk Hallgrímsdóttir) samþykki málið en benda á að frá því að ákvörðun um tekjutengingu var tekin sem undirritaðar voru andvígar stefnir fjöldi foreldra sem nýta heimgreiðslur í að fækka talsvert ár frá ári líkt og við bentum á að yrði að öllum líkindum raunin”.
Í bókun fulltrúa E og H lista (Hafdís Ástþórsdóttir, Aníta Jóhannsdóttir og Ellert Scheving Pálsson) segir að skiljanlega hafi nýtingin minnkað þar sem á síðustu 4 árum hefur verið aukið framboð á leikskólarýmum og verið að bæta verulega við þjónustu til þess að reyna að mæta því að taka inn börn sem fyrst eftir 12 mánaða aldur. Heimgreiðslur í dag hjálpa tekjulægstu foreldrum til þess að brúa bilið og telur meirihlutinn því fjármunum betur varið með núverandi heimgreiðslureglum”.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst