Hér má sjá nokkrar myndir frá fimmtudegi gosloka. Sunna spáði í framtíðina, Stebbi og Eyfi héldu tónleika á Háaloftinu, keppt var í bjórbingó á The Brothers Brewery, leikið var og sungið í Eldheimum og það bættist enn frekar í listasýningarnar.
Á Hilmisgötu 1 og 3 (Haukagil) var opið hús í vinnustofu Ragnars Engilbertssonar og myndalistarsýningar á báðum stöðum.
Stapafjölskyldan opnaði myndlistasýninguna „Undir listregni” í Svölukoti, en þar eru m.a. til sýnis verk eftir Ólaf Sigurðsson á Stapa, Elínu Albertsdóttur, Guðjón Ólafsson, Sigurbjörgu Ósk Antonsdóttur, Hafdísi Ösp Garðarsdóttur og Svanhvíti Birnu Samúelsdóttur.
Þær Jóný, Hófý og Konný opnuðu sýningu sína „Bland í poka” í Tónlistarskólanum, og Amalía Ósk Sigurðardóttir sýndi akrílmálverk í húsi Ribsafari á Básaskersbryggju. Þema sýningarinnar er eldgosið á Heimaey og í öllum verkunum er notaður vikur úr Eldfelli.
Þá voru þau Jóna Heiða Sigurlásdóttir, Viðar Breiðfjörð og Bjartey Gylfadóttir einnig með listasýningar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst