Gæti orðið ein stoðin í kröftugu atvinnulífi Eyjanna
Rauðátan – Rannsóknarleiðangur lofar góðu:
22. júlí, 2024
Hörður: Hér er allt til staðar, þekking, skip og aðstaða í landi.

„Þarna erum við að sjá drauminn rætast eftir fjögurra ára þrotlausa vinnu. Auðvitað fylgdi því stress áður en við lögðum af stað, en árangur túrsins var langt umfram væntingar,“ segir Hörður Baldvinsson, framkvæmdastjóri Þekkingarseturs Vestmannaeyja um rauðátuleiðangur á rannsóknarskipinu Árna Friðrikssyni HF 30 í maí sl. „Hann stóð í 3 daga og við höfum sýnt fram á að rauðátan er veiðanleg  með nánast engum meðafla. Það er því hægt að mínu mati  að veiða og nýta rauðátu sem er að finna í miklum mæli við  Suðurströndina á sumrin og ekki síst við Vestmannaeyjar sem gætu orðið miðstöð veiða og vinnslu á rauðátu.“ 

Hugmyndina á sínum tíma fékk Hörður þegar honum var sagt að lundinn missi litina á skrautlegum goggi fái hann ekki karontíne efnin sem eru meðal annars í rauðátu. „Þeir voru fölir á kinn, lundarnir sem fóstraðir voru hjá Sealife Trust. Lundar sem komu fullorðnir inn á safnið misstu smá saman lit á fótum og goggi, því enga fengu þeir rauðátuna. Fór ég að kanna þetta nánar og hingað erum við komin. Niðurstaða okkar úr leiðangrinum er sú að tiltölulega auðvelt sé að veiða um 20 til 30 tonn á sólarhring. 

 

Árni Friðriksson klár í leiðangurinn og hlerar merktir Setrinu, Rannís og Sóknaráætlun Suðurlands.

 

Þær tölur miðast við tvö troll og skip með réttum veiðibúnaði og heppilega vinnslu um borð. Árni Friðriksson er kominn til ára sinna og aðeins hægt að toga með einu trolli. Við tókum fimm hol í þessum leiðangri á mismunandi stöðum við Suðurströndina. Fyrst í klukkutíma og fengum 350 kíló. Færðum okkur um set og toguðum í þrjá tíma og í síðasta holinu toguðum við í fjóra tíma. Sprengdum trollið en heildaraflinn var 1,5 tonn af hreinni rauðátu.“ 

Allt í kringum Eyjar 

Rauðáta er allt í kringum Eyjar og köstuðu þeir í um klukkutíma siglingu frá Eyjum. „Síðustu tvö ár  höfum við tekið sýni við Suðurströndina og völdum togslóð m.a. byggða á þeim niðurstöðum. Notuðum þrennskonar gögn, upplýsingar frá gervihnetti um hvar helst er að finna rauðátu, hátíðni bergmálsmæli sem dreginn er með trollinu, þann eina sinnar tegundar á Íslandi. Loks sérhannaða háfa sem strákarnir í Hampiðjunni útbjuggu fyrir okkur í fyrra. Þeir taka sýni á mismunandi dýpi,“ sagði Hörður. 

Með því að keyra þessi gögn saman fékkst heildarmynd af því hvar rauðátan er þéttsust. „Þar trolluðum og var léttirinn mikill þegar fengum 350 kíló í fyrsta toginu og enginn meðafli. Mikið undir því það er ekki lítið dæmi að leigja heilt rannsóknaskip með tólf um borð, áhöfn og vísindamenn.“ 

 

Hörður rýnir í dýptarmæla á toginu.

 

Miklir möguleikar 

Hörður segir það vissulega mikinn létti að sjá drauminn verða að veruleika. „Aflinn var frystur hjá Ísfélaginu sem ásamt Vinnslustöð og fleirum hafa komið að þessu með okkur. Norðmenn hafa reynst okkur vel og notuðum við veiðarfæri frá þeim sem við leigjum í sumar. Rannís og Lóusjóður ásamt Uppbyggingarsjóði Suðurlands veittu okkur styrki sem hefur hjálpað okkur mikið. Þetta er gríðarlegt tækifæri fyrir Vestmannaeyjar.  

Aflinn í leiðangrinum verður nýttur í áframhaldandi rannsóknir en afurðir úr rauðátu geta verið afar verðmætar. Nýtist í fæðubótaefni og lyf sem er lokatakmarkið. Rannsóknir taka tíma en við erum að tala um háar upphæðir. Hafa verður í huga að það tekur langan tíma að þróa heppilegar veiðiaðferðir, þróa vinnslu sem er stöðug og afurðir sem standast ítrustu kröfur sem markaðurinn setur. Hér er um langhlaup að ræða og ekki ólíklegt að þróun vinnslu og afurða taki 10 til 15 ár. Magnið þarf ekki að vera mikið til að skapa hér gríðarleg verðmæti og hátæknistörf hér í Vestmannaeyjum til framtíðar,“ segir Hörður. 

 

Rauðátan var fryst í Ísfélaginu.

 

Hann segir mikla vinnu að baki en ÞSV er ekki hætt. „Það er ekki gefið að fá rannsóknaleyfi sem er 1000 tonn á ári í fimm ár eins og við erum með. Við förum aftur út á Árna 18. júní og verðum í fjóra daga. Eins öfugsnúið og það er ætlum við reyna fyrir okkur á svæðum þar sem eru meiri líkur á  meðafla til að ákveða hvar má toga í framtíðinni og á hvaða tímum og hvar ekki. 

Kvótinn í Noregi er 274.000 tonn á ári en þeir veiða ekki nema á milli 1000 tonn á ári upp í 1500. Það kæmi mér ekki á óvart að hér á landi yrði kvótasetningin veruleg þó veiðin yrði lítil til að byrja með. Af nógu er að taka því áætlað er að 13 milljón tonn af rauðátu séu við landið á hverju sumri og í miklum mæli við Vestmannaeyjar.  Hér er allt til staðar, þekking, skip og aðstaða í landi. Gullið tækifæri til að skjóta enn einni stoðinni undir kröftugt og fjölbreytt atvinnulíf í Vestmannaeyjum,“ sagði Hörður að endingu. 

Þessi grein er úr 11. tbl. Eyjafrétta.

Facebook
X
LinkedIn
Pinterest
Reddit
Email
Print
Skoða blaðið á netinu
6. tbl. 2025
6. tbl. 2025

NÝBURAR

76e2af77 02d9 48eb B73a 24c32e2403ac
4. janúar 2025
Drengur
Landspítalinn, Reykjavík.
Katrín Rós Óðinsdóttir og Sæþór Örn Garðarsson.
Mest lesið
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst

Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.