Styrkleikarnir – Einstök upplifun – Heill sólarhringur í Herjólfsdal
Styrkleikar Krabbameinsfélagsins er heill sólarhringur af ævintýrum, samstöðu og samkennd. Þeir verða haldnir í fyrsta sinn í Vestmannaeyjum í Herjólfsdal á laugardaginn nk. 9. ágúst og standa í heilan sólarhring. Verða þeir settir klukkan 12.00 á laugardaginn og verður slitið klukkan 11.45 á sunnudaginn. Krabbameinsfélagið er í samstarfi við Krabbavörn í Vestmannaeyjum og Bjarna Ólaf Guðmundsson sem er við stjórnvölinn í Vestmannaeyjum. Styrkleikarnir eru áheitaganga þar sem hópar, lið eða fjölskyldur skiptast á um að ganga eða hlaupa. Hver með sitt kefli og má keðjan ekki slitna fyrr en göngunni lýkur eftir heilan sólarhring.
Gangan hefst kl. 12.15 og kl. 13.00 er reynsluboltum, þeim sem tekist hafa á við krabbamein boðið til hádegisverðar. Kl. 15.00 er fjölskyldudagskrá og kl. 21.00 er ljósastund. Áfram er gengið og kl. 11.30 á sunnudaginn er fólki boðið að ganga síðasta hringinn og kl. 11.45 verður leikunum slitið.
Allir geta tekið þátt í göngunni og það kostar ekkert að vera með. Styrkleikarnir eru hluti af alþjóðlega viðburðinum Relay for Life sem fer fram árlega á yfir 5000 stöðum í meira en 30 löndum um allan heim. „Viðburðurinn fékk íslenska nafnið Styrkleikarnir enda finnum við styrk og veitum styrk í samstöðunni þegar við göngum saman til stuðnings fólki sem hefur verið snert af krabbameinum,“ segir Rakel Ýr Sigurðardóttir sérfræðingur hjá Krabbameinsfélaginu.
„Styrkleikarnir eru ekki keppni heldur snúast þeir um samstöðu, samveru og samtakamáttinn í að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein. Þeir eru alltaf skipulagðir í nærsamfélagi og undirbúnir og framkvæmdir að langmestu leyti af sjálfboðaliðum,“ sagði Rakel Ýr.
Styrkleikarnir eru haldnir til að sýna stuðning og safna fé sem nýtist til krabbameinsrannsókna ásamt því að veita krabbameinsgreindum ráðgjöf og þjónustu. Þjónusta Krabbameinsfélagsins er öllum að kostnaðarlausu og gerir verkefni eins og Styrkleikarnir meðal annars, félaginu kleift að halda út þjónustunni.
„Þetta er fjölskylduvænn viðburður og býður upp á einstaka upplifun fyrir alla, óháð aldri. Þeir eru öllum opnir sem vilja sýna stuðning í verki fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra. Styrkleikarnir byggja á liðum sem fjölskyldur, fyrirtæki, íþróttafélög, félagasamtök eða aðrir skrá sig í. Þeir snúast síðan um að hafa fulltrúa hvers liðs á hreyfingu, ganga, hlaupa með boðhlaupskefli í heilan sólarhring og er um leið táknrænn fyrir að engin hvíld fæst frá krabbameini,“ sagði Rakel Ýr.
Skráning fyrir áheitasöfnun fer fram inn á safna.krabb.is – Allar nánari upplýsingar um Styrkleikana má finna á styrkleikarnir.is – Facebook viðburður – https://fb.me/e/37590CzQp
Alltaf er þörf fyrir hjálpfúsar hendur og eru þeir sem ekki treysta sér til að ganga velkomnir að aðstoða við gönguna. Gefa göngufólkinu kaffi og kakó og eitthvað að borða á meðan á göngunni stendur. Bjarni Ólafur gefur nánari upplýsingar í síma 896 6818.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst