Um helgina fór fram pílumót í Vestmannaeyjum með miklum glæsibrag. Í ár tóku alls 57 keppendur þátt, 49 í karlaflokki og 8 í kvennaflokki.
Keppnin hófst á föstudagskvöldi með tvímenningi, þar sem 20 pör tóku þátt. Þar höfðu Árni Ágúst Daníelsson og Birnir Andri Richardsson, ungi og efnilegi Eyjamaðurinn, sigur eftir hörkuspennandi úrslitaleik gegn Halla Egils og Jóni Knút.
Á laugardeginum fór svo fram einmenningur þar sem keppt var í riðlum og síðan í úrslit í A- og B-deild. Hörður Þór Guðjónsson bar sigur úr býtum í A-úrslitum eftir frábæran og jafnan úrslitaleik gegn Halla Egils. Í þriðja og fjórða sæti í A-deild voru þeir Árni Ágúst Daníelsson og Kári Vagn Birkisson, sem vann mótið í fyrra. Í B-deildinni sigraði Guðjón Sigurðsson, sem hafði betur gegn Marel Högna Jónssyni í úrslitaleik. Í kvennaflokki stóð Steinunn Dagný Ingvarsdóttir uppi sem sigurvegari eftir úrslitaleik við Árdísi Sif Guðjónsdóttur. Í þriðja og fjórða sæti urðu þær Sara Heimisdóttir og Nadía Ósk Jónsdóttir.
Þórarinn Björn Steinsson, forsvarsmaður Pílufélags Vestmannaeyja er einn af skipuleggjendum mótsins. Hann segir í samtali við Eyjafréttir að þetta mót sé orðið árlegur viðburður hjá félaginu. „Áhuginn er mjög mikill á þessu móti sem sést best á því að við erum að fá mjög sterka keppendur ofan af landi sem skipa meirihlutann á þessu móti. Þar á meðal eru landsliðsmenn og nokkrir af þeim allra bestu á landinu sem leggja leið sína til okkar.”
Aðstandendur mótsins vilja einnig koma á framfæri innilegu þakklæti til þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem styrktu mótið og gerðu það að veruleika. Meðal þeirra sem studdu við mótið voru:
Vöruhúsið, Alþrif, Löður, Heimadecor, Tranbergs bakarí, Miðstöðin, Salka, Litla Skvísubúðin, Icewear, Húsasmiðjan, Herjólfur, Hótel Vestmannaeyjar og Tapasbarinn, sem öll gáfu glæsilega vinninga.
Mótsstjórn var í höndum Ingibjargar Magnúsdóttur, sem stóð sig með mikilli prýði og fær sérstakar þakkir fyrir sína faglegu og skipulögðu vinnu. Ljósmyndari Eyjafrétta leit við í Íþróttamiðstöðina um helgina og smellti nokkrum myndum af mótinu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst