Dagskrá laugardags Goslokahátíðar var þétt skipuð líkt og öll helgin. Þátttakendur í Volcano open rifu sig eldsnemma á fætur og héldu áfram leik sínum hjá Golfklúbbi Vestmannaeyja. Stuttu síðar bauð Óli Týr fólki með sér í göngu upp á Heimaklett. Um það leyti er niður var komið opnaði Kristinn Pálsson sýningu sína „Gakktí bæinn” í Þekkingasetrinu. Þá opnuðu Frímúrarar einnig dyr sínar í tilefni af 100 ára afmæli reglunnar. Helga Jónsdóttir og Arnór Hermannsson buðu fólki í Hippakotið sitt þar sem þau buðu upp á „Músík, myndlist og mósaík.”
Í Einarsstofu í Safnahúsi var boðið upp á hið sívinsæla „Eyjahjarta.” Að þessu sinni voru það þauu Edda Andrésdóttir, Helgi Bernódusson, Inga Jóna Hilmisdóttir og Sigurjón Guðmundsson sem sögðu sögu sína. Troðfullt var útúr dyrum og komust færri að en vildu.
Við Safnahúsið kom Bifreiðaklúbbur Suðurlands sér fyrir og sýndi nokkra fornbíla ásamt nokkrum slíkum í eigu Eyjamanna.
Það var ekki síður mikið í boði fyrir yngri kynslóðina á laugardaginn. SJÓVE bauð upp á dorgveiðikeppni á Nausthamarsbryggju. Þá var skellt í eitt stykki sundlaugardiskó með Ingó Veðurguði í Sundhöllinni. Sprell leiktæki komu sér fyrir á bílaplaninu við Stakkagerðistún og Fjölskylduhátíð Landsbankann var á sínum stað. Óhætt er að segja að miðbærinn hafi verið troðfullur af fólki enda eindæma veðurblíða.
Um kvöldið var svo stemningin í Skvísusundi rifjuð upp þar sem spilað var og sungið í nokkrum króm. Eftir miðnætti var svo slegið í ball á Skipasandi.
Myndir: Óskar Pétur Friðriksson.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst