Ég, Guðrún Hafsteinsdóttir tilkynnti í kvöld, félögum mínum á aðalfundi Sjálfstæðisfélagsins í Hveragerði, þá ákvörðun mína að bjóða mig fram til forystu í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer í maí.
Síðustu vikur og mánuði hef ég fengið mikla hvatningu, alls staðar að í Suðurkjördæmi, til að gefa kost á mér í prófkjöri Sjálfstæðismanna. Ég er þakklát öllum þeim sem hafa stutt mig og hvatt með ráðum og dáð og hlakka til þessa verkefnis sem framundan er.
Suðurkjördæmi býr yfir miklum tækifærum sem brýnt er að efla. Ég er tilbúin að taka þátt í þeirri vinnu og tel að reynsla mín og þekking muni nýtast vel. Í Suðurkjördæmi er iðandi og gott mannlíf og hér höfum við allt sem þarf til að vera leiðandi á öllum sviðum atvinnlífsins. Ég trúi því að saman getum við eflt atvinnugreinar okkar og bætt lífskjör okkar sem hér búum og störfum.
Ég vil hafa áhrif á þróun samfélagins og því býð ég mig fram í fyrsta sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi sem fram fer þann 29. maí.
Ég hef opnað vefsíðuna www.gudrunhafsteins.is þar sem ég mun setja inn greinar um áherslumál mín, hugleiðingar og fréttir ásamt viðburðum sem haldnir verða í þessari prófkjörs baráttu. Einnig hef ég komið upp “Like” síðu á Facebook www.facebook.com/gudrunhafsteins1 þar sem þið getið fylgst með ferðalögum mínum um kjördæmið.
Guðrún er fædd 9. febrúar 1970 og er dóttir hjónanna Laufeyjar Valdimarsdóttur og Hafsteins Kristinssonar. Guðrún er í sambúð með Hans Kristjáni Einarssyni Hagerup, gullsmið og eiga þau samtals sex börn.
Um Guðrúnu
Hún er með stúdentspróf frá Fjölbrautaskóla Suðurlands, B.A gráðu í mannfræði frá HÍ 2008 og þá hefur hún lokið diplóma námi í jafnréttisfræðum einnig frá HÍ. Hún hefur starfað nær allan sinn starfsferil hjá fyrirtæki fjölskyldunnar Kjörís ehf. í Hveragerði.
Guðrún hefur alla tíð verið virk í félagsmálum. Hún hefur setið í bæði fræðslunefnd og skipulags- og umhverfisnefnd Hveragerðisbæjar sem fulltrúi D-listans og þá á hún sæti í sóknarnefnd Hveragerðiskirkju. Árið 2004 stofnaði hún Sunddeild Íþróttafélagsins Hamars og var formaður deildarinnar til 2014.
Síðast liðinn áratug hefur Guðrún setið í stjórnum margra fyrirtækja og félaga. Hún var kjörin formaður Samtaka iðnaðarins árið 2014 og var þar formaður til 2020. Þá hefur hún einnig átt sæti í stjórn Samtaka atvinnulífsins, Háskóla Reykjavíkur, Bláa Lónsins og Lífeyrissjóðs verzlunarmanna.
Eflum Suðurkjördæmi!
Með bestu kveðju,
Guðrún Hafsteinsdóttir
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst