Farþegaferjan Herjólfur hefur síðustu rúmar tvær vikur verið í slipp í Hafnarfirði. Hefur hefðbundnu viðhaldi verið sinnt og skipið málað að utan og innan.
„Allt frá því skipið var tekið upp í slipp, mánudaginn 8. september, hefur verið unnið alla daga, myrkranna á milli. Stærsta verkefnið er heilmálun á skipinu, en til marks um hve umfangsmikil málningarvinnan er, þá hafa farið um sex tonn af málningu á skipið og langstærsta málningarverkefni sem hefur verið unnin í þessum slipp. Auk þess eru þau fjölmörg verkefnin, stór sem smá sem hefur verið að vinna í,“ segir Ólafur Jóhann Borgþórsson framkvæmdastjóri Herjólfs í samtali við Eyjafréttir.
Það hafa margir sérfræðingar komið að þessari vinnu auk þess sem bæði vélstjórar og skipstjórar Herjólfs hafa staðið vaktina í Hafnarfirði og unnið þar gífurlega mikla vinnu, en Óskar Haraldsson, útgerðarstjóri hefur haft yfirumsjón með skipulagningu og framkvæmd slipptökunnar af hálfu Herjólfs.
Nú sér fyrir endann á slippnum og stefnt að skipið verði tekið niður um helgina og komi aftur í heimahöfn á sunnudag og fari eins fljótt og verða má í áætlun og þar með mun Breiðafjarðarferjan Baldur halda á sínar heimaslóðir og fara í áætlun á milli Stykkishólms, Flateyjar og Brjánslækjar.
„Útgerðaraðilar, skipstjórar og áhöfn Baldurs hefur staðið sig vel við mjög krefjandi aðstæður síðustu dagana. Fyrstu heilu tvær vikurnar var fært í Landeyjahöfn gengu siglingar að mestu leyti vel og rúmlega það, því Baldur siglir hraðar en á mótvelti meira en Herjólfur, enda tæpum þrjátíu árum eldra skip. En hins vegar var það þannig um leið og aldan reis og við þurfum að sigla til Þorlákshafnar söknum við Herjólfs sérstaklega sárt. Bæði er það vegna þess að flutningsgeta Baldurs er talsvert minni en Herjólfs auk þess sem aðeins fá kojurými er fyrir farþegana og auðvitað sú staðreynd að Herjólfur er mjög gott sjóskip.
Aðspurður um hvers vegna Baldur hafi verið fenginn en ekki eitthvert annað skip segir Ólafur að það sé Vegagerðin sem ákveði hvaða skip það er sem kemur hér í afleysingar. „Mikilvægast er að það skip sem siglir hér á milli geti annað flutningsþörfinni, hvort sem það varðar farþega, bíla eða vöruflutninga.“
Aðspurður um næsta slipp segir Ólafur að ef ekkert óvænt kemur upp á reiknað með að næsti slippur Herjólfs verði haustið 2028. „En með skip sem er í stífri áætlun alla daga getur auðvitað eitthvað bilað – en við við krossleggjum fingur og spennum greipar og vonumst til þess að Herjólfur þurfi ekki að fara aftur fyrr en eftir þrjú ár.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst