Í framhaldi af viðtali við Eyjafréttir þar sem bæjarstjóri Vestmannaeyja lýsti áhyggjum af áhrifum nýrrar gjaldskrár raforkuflutninga á orkuskipti og atvinnulíf í Eyjum, hefur nú orðið breyting á stöðu rafmagnsferjunnar Herjólfs.
Í færslu á samfélagsmiðlum greinir Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri Vestmannaeyja frá því að Herjólfur sé nú kominn aftur á rafmagn báðar leiðir, í kjölfar samtals hennar við Jóhann Pál Jóhannsson, orkumálaráðherra.
„Í framhaldi af því er Herjólfur nú kominn aftur á rafmagn báðar leiðir í samráði við stjórnendur félagsins, vegna umhverfissjónarmiða. Þannig á það að vera,“ skrifar bæjarstjórinn.
Í stöðufærslunni kemur jafnframt fram að bæjarstjóri og ráðherra séu sammála um að gjaldskrá raforkuflutninga þurfi að þróast með fyrirsjáanlegum hætti og að fyrirkomulagið megi ekki grafa undan orkuskiptum eða samkeppnishæfni.
Að sögn Írisar hefur ráðherra nú sett af stað vinnu með óháðum sérfræðingum og raforkueftirlitinu, sem miðar að því að skerpa á þessum atriðum.
Íris greinir jafnframt frá því að niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar í Vestmannaeyjum hafi verið auknar í samræmi við hækkun gjaldskrár. Þá séu lagabreytingar framundan sem miði að því að jafna dreifikostnað raforku um allt land. „Við munum halda stjórnvöldum við efnið í þessum málum sem öðrum,“ segir bæjarstjórinn að lokum.
Eins og Eyjafréttir hafa greint frá hefur ný gjaldskrá raforkuflutninga haft víðtæk áhrif í Vestmannaeyjum, meðal annars orðið til þess að Herjólfur hafði tímabundið hætt rafhleðslu í heimahöfn. Málið hefur verið til umfjöllunar í fréttum, viðtölum og fréttaskýringum á vef Eyjafrétta undanfarnar vikur.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst