Hlynur Andrésson setti nýtt Íslandsmet í 3.000 metra hlaupi karla innanhúss á frjálsíþróttamóti í Indiana í Bandaríkjunum, Meyo Invitational, á miðvikudagskvöldið.
Mbl.is greindi frá.
Hlynur, sem er 23 ára gamall og keppir fyrir ÍR, hljóp vegalengdina á 8:06,69 mínútum og hafnaði í áttunda sæti af 50 keppendum í hlaupinu. Hann var aðeins 1,69 sekúndu frá lágmarkinu fyrir Evrópumeistaramótið innanhúss sem fram fer í Belgrad 3.-5. mars.
Hlynur bætti tíu ára gamalt Íslandsmet Kára Steins Karlssonar rækilega, eða um ríflega fjórar sekúndur, en Kári hljóp á 8:10,94 mínútum í Laugardalshöllinni í janúar árið 2007.
Kári sló þá 26 ára gamalt met Jóns Diðrikssonar, frá árinu 1981, og þetta er því aðeins í annað sinn á 36 árum sem sá árangur Jóns er bættur. �?að met var 8:11,80 mínútur.
Áður átti Hlynur þriðja besta tíma Íslendings í greininni en hann hljóp á 8:13,55 mínútum í Bandaríkjunum fyrir tveimur árum.