Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja samþykkti á fundi sínum að leggja til að tveir fulltrúar Vestmannaeyjahafnar verði sendir á Seatrade Global ráðstefnuna sem fer fram í vor. Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur, en fulltrúar D-lista greiddu atkvæði gegn henni.
Beiðnin barst frá hafnarstjóra og hafsögumönnum sem telja nauðsynlegt að viðhalda tengslum við viðskiptavini og kynna Vestmannaeyjar sem áfangastað skemmtiferðaskipa. Á fundinum kynnti framkvæmdastjóri Cruise Iceland, Sigurður Jökull Ólafsson, ráðstefnuna og þau tækifæri sem hún getur skapað.
Í bókun meirihluta E- og H-lista kemur fram að 14 ár séu liðin frá því Vestmannaeyjahöfn sendi fulltrúa á sambærilega kaupstefnu. Jafnframt er bent á að með fyrirhugaðri innviðauppbyggingu hafnarinnar og styttingu Hörgeyrargarðs skapist ný sóknarfæri til að taka á móti stærri skemmtiferðaskipum. Þátttaka í Seatrade Global geti styrkt tengsl við skipafélög og nýst til að kynna þróun og framtíðaráform hafnarinnar.
Fulltrúar D-lista lögðust gegn tillögunni og telja það ekki vera hlutverk starfsmanna Vestmannaeyjahafnar að sækja slíkar ráðstefnur á erlendri grundu. Þeir segja að nær væri að fulltrúar ferðaþjónustu, ferðamálasamtaka eða ferðamálafulltrúi Vestmannaeyjabæjar sinni slíkri kynningu, enda snúist verkefnið fyrst og fremst um áfangastaðamarkaðssetningu og tengslamyndun í ferðaþjónustu.
Tillagan var að lokum samþykkt með 3 atkvæðum gegn 2 og verður málinu vísað til seinni umræðu við gerð fjárhagsáætlunar 2026.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst