Í síðustu viku komu til landsins forsvarsmenn frá MSC Cruises, Royal Caribbean Group, Carnival Corporation, Windstar Cruises, Ponant og), öll félög sem sent hafa skemmtiferðaskip til Íslands undanfarin ár, ásamt samtökunum CLIA (Cruise Lines International Association). Tilefni heimsóknar var funda með þingmönnum og stjórnsýslu. Til að koma á framfæri áhyggjum um fækkun á komum skemmtiferðaskipa til landsins vegna mjög hárra innviðargjalda sem lögð voru á með nánast engum fyrirvarar og óvissu sem það hefur skapað ásamt öðrum breytingum á rekstrarumhverfi skemmtiferðaskipa á Íslandi undanfarin ár.
„Við funduðum með þingmönnum og fólki úr stjórnsýslunni. Skilaboðin voru að útgerðir skemmtiferðaskipanna hafa alla tíð sýnt skilning á mikilvægi þess að ríkissjóður, sveitarfélög og samfélagið hafi tekjur af starfseminni svo lengi sem gjaldtakan sé ákvörðuð með að lágmarki tveggja ára fyrirvara og án þeirrar mismununar sem stjórnvöld hafa sýnt fram að þessu,“ segir Sigurður Jökull Ólafsson, framkvæmdastjóri Cruise Iceland, samtaka hagsmunaaðila hér á landi.
„Það er fullur vilji hjá öllum innan geirans að standa að langtíma stefnumótun með stjórnvöldum. Þannig hefur það verið eins og bersýnilega má sjá af reglulegum heimsóknum forsvarsmanna skemmtiferðaskipa hingað til lands undanfarin ár. Líka sú staðreynd að öll skipafélögin eru samtaka, öll sem eitt, í viðleitni sinni að vera í góðri samvinnu við alla hagaðila á Íslandi.“
Sigurður Jökull segir að samtölin hafi verið hreinskiptin, opin og skilningur ríkt. „Skilaboðin til forsvarsmanna félaganna voru mikill vilji þingmanna á að endurskoða ætti innviðargjöld, þannig að meiri sanngirni og fyrirsjáanleiki væri til staðar fyrir skipafélögin að vinna eftir til næstu 10 ára. Ekki síst í ljósi þess að mikil fækkun er fyrirsjáanleg á komum skemmtiferðaskipa til landsins á næstu árum, 17% fyrirséð á næsta ári og 37% árið þar á eftir, miðað við árið 2024. Þessi fækkun kemur sérstaklega niður á landsbyggðinni og öllum þeim fjölda sem hefur atvinnu af því að þjónusta skipin og farþega þeirra. Þjónusta sem er mjög yfirgripsmikil,“ segir Sigurður Jökull.
„Stundum má segja, að glöggt er gests augað eins og sagt er. Þegar framkvæmdastjóri samtakanna Cruise Baltic, benti mér á eftir að hafa séð þessar hræðilegu bókunartölur frá Íslandi: – Áttar þú þig á því að þetta er hreint hrun sem er einstakt á heimsvísu. Hvergi er meiri samdráttur í komum skemmtiferðaskipa,“ bætir Sigurður Jökull við.
Samkvæmt upplýsingum frá samtökum skemmtiferðaskipa, þ.e.a.s. bæði AECO og CLIA, er hvergi samdráttur í skipakomum nema á Íslandi. Miðað við bókanir fækkar komum skemmtiferðaskipa til Vestmannaeyja úr 109 í ár í 67 árið 2027 og munar um minna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst