„Ég vil óska ykkur til hamingju með niðurstöðu í nýafstöðnu hlutafjárútboði og líka umsjónaraðilum, Arionbanka, Íslandsbanka og Landsbankanum fyrir sérlega glæsilega niðurstöðu,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands þegar hann bauð Ísfélag hf. velkomið í Kauphöllina í morgun.
Guðbjörg Matthísadóttir sem ásamt fjölskyldu er stærsti eigandi Ísfélags hringdi félagið inn í Kauphöllina á slaginu hálftíu í morgun. Athöfnin fór fram í brú Sigurðar VE 15 sem er eitt skipa félagsins að viðstöddu fjölmenni.
„Það er gaman að bjóða elsta starfandi hlutafélagi landsins velkomið í Kauphöllina, með um 6000 hluthafa er Ísfélgið sannkallað almenningshutafélag. Eru aðeins þrjú félög í Kauphöllinni sem skarta fleiri hluthöfum,“ sagði Magnús.
„Ísfélagið er líka meðal stærstu fyrirtækja í Kauphöllinni. Á útboðsverði er markaðsvirði félagsins 130 milljarðar og er það sjöunda verðmætasta fyrirtækið í Kauphöllinni. Með tilkomu Ísfélagsins heldur endurkoma sjávarútvegs í Kauphöllina áfram. Fjöldi sjávarútvegsfyrirtækja í Kauphöllinni náði hámarki árið 2000 þegar þau voru 24,“ sagði Magnús en þau hurfu úr Kauphöllinni en með tilkomu Ísfélags í Kauphöllina eru þau orðin þrjú.
Traust á eigendum, stjórnendum og starfsfólki
„Þetta er söguleg stund. Ísfélag var stofnað 1. desember 1991 og leggur nú síungt upp í nýtt ferðlag,“ sagði Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson,“ stjórnarformaður Ísfélags í ávarpi sínu.
„Það voru mikil tímamót í sögu félagsins fyrir rúmum 30 árum þegar Sigurður Einarsson, útgerðarmaður tók forystu í félaginu eftir að hafa sameinast með því að leggja fjölskyldufyrirtækið, Hraðfrystistöð Vestmannaeyja við Ísfélagið. Fjölskyldan hefur síðan farsællega leitt félagið sem orðið er eitt það glæsilegasta og öflugasta félag á landinu.“
Gunnlaugur Sævar sagði glæsilegt hlutafjárútboð bera mörgu vitni. „Hún sýnir auðvitað og vottar glæsileika félagsins og trú fjárfesta á framtíðinni. Hún staðfestir trú fjárfesta á kjölfestu fjárfestum félagsins, stjórnendum þess og starfsmönnum.“
Ísfélag verður til
Á hluthafafundi Ísfélags Vestmannaeyja hf. 15. Júní sl. samþykktu hluthafar að sameinast Ramma hf. Ísfélagið er yfirtökufélagið og munu hluthafar Ramma fá hlutabréf í Ísfélaginu. Félagið mun bera nafnið Ísfélag hf. enda er nú starfsemi félagsins á fjórum stöðum um landið; í Eyjum, á Þórshöfn, á Siglufirði og í Þorlákshöfn. Um fjörutíu manns, hluthafar og starfsmenn, sóttu fundinn í gær.
Í heildina starfa nú rúmlega 400 starfsmenn hjá sameinuðu félagi, við útgerðina bætast 4 skip, ásamt rækjuvinnslu á Siglufirði og fiskvinnslu í Þorlákshöfn. Bæði félögin hafa verið öflug og sterk á sínu sviði, annarsvegar í uppsjávarveiðum og hins vegar í bolfiskveiðum og gefur þetta aukin tækifæri til vaxtar og rennir styrkari stoðum undir rekstur beggja félaga.
Hlutafjárútboð
Almennu hlutafjárútboði Ísfélags hf. lauk kl. 14:00 þann 1. desember. Alls bárust um 6.500 áskriftir að andvirði um 58 milljarðar króna sem samsvarar tæplega fjórfaldri eftirspurn. Rúmlega fimmföld eftirspurn var eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A og rúmlega þreföld eftirspurn var eftir hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók B.
Mynd: Guðbjörg og fjölskylda sem viðstödd voru þegar Ísfélagið var hringt inn í Kauphöllina.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst