Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja fundaði í síðustu viku og fór þar yfir innviðauppbyggingu á hafnarsvæðinu.
Á þarsíðasta fundi ráðsins var samþykkt að fela hafnarstjóra og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að forma verkefnið og kanna kostnað við greiningarvinnuna. Starfsmenn ráðsins hafa nú formað verkefnið og kostnaður við þennan hluta er á bilinu 1-1. 4 m.kr. Sá kostnaður rúmast innan fjárhagáætlunar hafnarinnar. Starfsmenn telja Jóhann Halldórsson tilvalinn til að vinna verkið. Óskað er eftir staðfestingu ráðsins á fyrirkomulaginu svo hægt sé að hefja vinnuna.
Að mati starfsmanna er nauðsynlegt að skila inn til Vegagerðarinnar strax í haust geinargerð með sýn stærstu hagsmunaaðila hafnarinnar á nýtingu stórskipakants og annarra innviða sveitarfélagsins við uppbyggingu sinna fyrirtækja. Einnig hvernig hægt er að mæta þeim sem hafa áhuga á að byggja upp starfsemi í Eyjum. Greinagerðin yrði fyrsta skref í greiningu á innviðauppbyggingu og framtíðarsýn Vestmannaeyjahafnar. Í framhaldi þarf að halda áfram með verkefnið og tímasetja þær framkvæmdir sem framundan eru.
Fram kemur að Erlingur Guðbjörnsson, formaður hafi vikið af fundi við afgreiðslu málsins og í hans stað kom Kristín Hartmannsdóttir inn á fundinn.
Fulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi breytingatillögu:
Í ljósi hagræðingarvinnu sem á sér stað hjá sveitarfélaginu leggja fulltrúar D lista til að skipaður verði starfshópur sem samanstandi af formanni og varaformanni ráðsins, hafnarstjóra og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs. Starfshópurinn taki að sér umrædda vinnu í stað útkeyptrar þjónustu enda eru fordæmi slíkrar vinnu víða hjá sveitarfélaginu. Reynsla, þekking og tengslanet umræddra aðila gagnvart hafnsækinni atvinnustarfsemi er umfangsmikil og kæmi að góðum notum við starfið.
Breytingatillagan er felld með þremur atkvæðum E og H lista gegn tveimur atkvæðum D lista.
Ráðið samþykkti með þremur atkvæðum E og H lista gegn tveimur atkvæðum D lista, fyrirkomulagið á vinnunni og fól hafnarstjóra og framkvæmdastjóra sviðsins að fylgja verkefninu eftir sem rúmast innan fjárhagsáætlunar. Greiningin verður kynnt fyrir ráðinu þegar hún liggur fyrir.
Áhersla er lögð á að greiningin sé unnin hratt og vel enda mikilvægt að ítarleg gögn fylgi umsókn Vestmannaeyjarhafnar til Vegagerðarinnar þegar unnið er að framtíðaruppbyggingu hafnarinnar.
Í bókun minnihlutans segir að fulltrúar D lista hafni tillögunni. Á síðasta fundi samþykkti ráðið að fela hafnarstjóra og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að forma verkefnið og kanna kostnað við greiningarvinnuna. Nú hafa hafnarstjóri og framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs ekki einungis lagt fram skjal þar sem form verkefnisins og áætlaður kostnaður er útlistaður eins og beðið var um, heldur auk þess lagt til að viðskiptafræðingur og áhugamaður um atvinnuuppbyggingu í Vestmannaeyjum verði fenginn til verksins á fyrirframákveðnu tímagjaldi.
Ekki verður séð af framlögðum gögnum annað en að samtal hafi átt sér stað á milli aðila án þess að ráðið hafi samþykkt að ráðast í verkefnið og án nokkurrar umræðu innan ráðsins um hver fenginn yrði til verksins. Þá verður ekki séð að þessi greiningarvinna skili einhverju umfram það sem þekkt er og mun þróast með eðlilegum hætti með stækkun samfélagsins. Það er ábyrgð fólgin í því að ráðstafa almannafé, verjum frekar peningum í raunverulega uppbyggingu innviða sem eru augljósir.
Í bókun E og H lista segir: Eins og fram kemur í niðurstöðu ráðsins þá er mikilvægt að þessi vinna fari af stað sem fyrst svo hægt sé að halda áfram með uppbyggingu hafnarinnar eins og fram kom á síðasta fundi ráðsins, nr 323. Þær skýrslur og gögn sem eru til, munu nýtast vel í þessari vinnu.
Kostnaðurinn rúmast innan fjárhagsáætlunar enda er gert ráð fyrir því í áætlun að ráðið geti farið í vinnu sem þessa. Á síðasta fundi samþykkti allt ráðið að fela hafnarstjóra og framkvæmdastjóra umhverfis og framkvæmdasviðs að forma verkefnið betur og finna hentugan aðila að fara í þessa greiningavinnu. Fundurinn var boðaður með löglegum hætti þar sem var tekið fyrir þetta mál til samþykktar, segir í bókun meirihlutans.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst