Nýtt og veglegt jólablað Eyjafrétta kemur út í dag og að vanda er blaðið fjölbreytt og efnismikið, með áherslu á samfélagsmál, menntun, menningu, mannlegar sögur og jólahátíðina í Vestmannaeyjum. Blaðið er efnismikið og telur alls 56 blaðsíður.
Í blaðinu er m.a. fjallað um nýja samgönguáætlun innviðaráðherra fyrir árin 2026–2030, þar sem gert er ráð fyrir framkvæmdum við höfnina í Vestmannaeyjum. Þar á meðal er stytting Hörgaeyrargarðs, lenging Nausthamars og undirbúningur nýrrar ferjubryggju og ekjubrúar fyrir Herjólf.
Menntamál eru einnig í brennidepli í blaðinu. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum hlaut Íslensku menntaverðlaunin 2025 í flokki framúrskarandi verk- og iðnmenntunar. Í ítarlegri umfjöllun er fjallað um öflugt samstarf skólans við atvinnulífið, raunveruleg verkefni nemenda og hvernig verkmenntun í Eyjum hefur orðið fyrirmynd á landsvísu.
Í mannlífs- og menningarhluta blaðsins er meðal annars viðtal við Margréti Steinunni Jónsdóttur, formann Leikfélags Vestmannaeyja, sem ræðir ástríðu sína fyrir leiklist, starfsemi félagsins og framtíðaráform. Þá er fjallað um afhendingu listaverka hins látna prófessors Rupert Charles Loucks til Safnahússins í Vestmannaeyjum – saga sem ber vitni um djúp tengsl erlends listunnanda við Ísland, Eyjar og íslenska menningu.
Í blaðinu er einnig viðtal Ásmundar Friðrikssonar við Jóhannes Ólafsson, fyrrverandi yfirlögregluþjón, þar sem hann ræðir fyrst og fremst umbrotatíma í starfi sínu hjá ÍBV, hlutverk sitt innan félagsins og þær breytingar sem hafa átt sér stað í kringum íþróttastarfið. Jafnframt fer Jóhannes yfir lífshlaup sitt, bakgrunninn og reynsluna úr störfum hjá lögreglunni, sem hefur mótað sýn hans á leiðtogahlutverk, ábyrgð og samfélagsþjónustu.
Í íþrótta- og viðtalshluta blaðsins er einnig ítarlegt viðtal við Heimi Hallgrímsson, landsliðsþjálfara Írlands og einn þekktasta Eyjamann á alþjóðlegum vettvangi. Þar ræðir Heimir meðal annars um þjálfarastarfið með írska landsliðinu, lífið erlendis, leiðtogahlutverkið og þá reynslu sem hann hefur safnað á löngum ferli í knattspyrnu. Viðtalið er bæði persónulegt og fróðlegt og gefur góða innsýn í hugmyndafræði hans, vinnubrögð og tengsl hans við Eyjar þrátt fyrir annríkt starf á erlendum vettvangi.
Jólablærinn er sterkur í blaðinu og þar er meðal annars sagt frá Jólahúsi ársins 2025, þar sem heimilið að Búhamri 64 hlaut viðurkenningu fyrir fallega jólaskreytingu. Þá er sérstök barnasíða þar sem nokkur Eyjabörn segja frá jólunum, óskum sínum og því sem þeim þykir skemmtilegast við hátíðina.
Þá ræðir Guðni Einarsson við þau Helgu Jónsdóttur og Arnór Hermannsson, listahjón sem hafa í áratugi sett sterkan svip á menningarlíf Eyjanna með tónlist, myndlist og bakstri. Rakin er lífssaga þeirra, listferill og sameiginleg leið í gegnum lífið – allt frá unglingsárum til dagsins í dag.
Af samfélagsmálum má einnig nefna ítarlega grein um Hollvinasamtök Hraunbúða, þar sem fjallað er um starfsemi samtakanna, sjálfboðavinnu, stuðning samfélagsins og mikilvægi þess að skapa gleði og góðar minningar fyrir heimilisfólk á hjúkrunarheimilinu.
Auk þessa er blaðið prýtt fjölmörgum jólakveðjum, auglýsingum, bókakynningum og myndum sem endurspegla hátíðarstemningu bæjarins þegar árið er að renna sitt skeið.
Hægt er að gerast áskrifandi að Eyjafréttum hér á vefnum, en blaðið fæst einnig í lausasölu í Tvistinum og á Kletti. Áskrifendur geta nálgast vefútgáfuna hér. Ef þú vilt gerast áskrifandi þá er þetta síðan sem þú getur með auðveldum hætti náð þér í blaðið.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst