Aðalfundur Krabbavarnar var haldinn í gær. Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir formaður félagsins segir í samtali við Eyjar.net að á fundinum hafi verið farið yfir starfsárið 2023 sem var mjög fjölbreytt. Unnið var að föstum viðburðum sem hafa tilheyrt félaginu til margra ára ásamt öðrum uppákomum eins og gríðarlega vel heppnuðu bleiku kvöldi og opnu húsi þar sem starfsemi félagsins var kynnt.
„Árið 2023 var gjöfult ár fyrir félagið hvað varðar styrki til félagsins á einn eða annan hátt, félagið er lánsamt að hafa alla þá styrktaraðila sem hugsa til þess og bæjarbúa alla sem sýna félaginu hlýhug. Kærleikur er magnað verkfæri, sem félagið finnur fyrir í samfélaginu og erum við ævinlega þakklát fyrir það.“ segir Sigurbjörg Kristín.
Ný stjórn var kjörin á fundinum. Ingibjörg Andrea Brynjarsdóttir hætti sem ritari félagsins og Margrét Þóra Guðmundsdóttir tekur við því starfi. Margrét Þóra hættir því sem varaformaður og tekur Valgerður Þorsteinsdóttir við því starfi ásamt því að Fjóla Róbertsdóttir kemur inn sem varmaður í stjórn.
Stjórn félagsins er þannig skipuð:
Formaður: Sigurbjörg Kristín Óskarsdóttir
Varaformaður: Valgerður Þorsteinsdóttir
Gjaldkeri: Olga Sædís Bjarnadóttir
Ritari: Margrét Þóra Guðmundsdóttir
Meðstjórnendur: Kristín Valtýsdóttir og Guðrún Gísladóttir
Varamaður: Fjóla Róbertsdóttir
Félagið þakkar fráfarandi ritara fyrir vel unnin störf í þágu félagsins. Óskar Pétur Friðriksson var á fundinum og tók hann meðfylgjandi myndir.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst