„Ekki hefur borist svar frá fjármálaráðherra við bréfi sem lögmenn Vestmannaeyjabæjar í þjóðlendumálinu sendu honum þar sem farið var fram á afturköllun kröfulýsingar um allt land í Vestmannaeyjum.” Svona hefst bókun bæjarráðs Vestmannaeyja sem fundaði í vikunni.
Þar segir jafnframt að endurskoðuð kröfulýsing ríkisins um þjóðlendur í Vestmannaeyjum liggi nú hins vegar fyrir og ljóst að ráðherra varð ekki við ósk lögmanna um afturköllun að öllu leyti, sú breyting hefur orðið að fallið er frá kröfum til Heimaeyjar, að öðru leyti en því að gerð er krafa til Stórhöfða sem er sérstakt þar sem ekki verður séð að hann hafi aðra stöðu en annað land á Heimaey. Krafan er svo óbreytt varðandi úteyjar, þ.e. gerð er krafa um að allar aðrar eyjar í Vestmannaeyjaklasanum verði þjóðlenda þar sem um sé að ræða afnotaland og ekki vitað um fasta búsetu þar.
Í afgreiðslu ráðsins segir að bæjarráð lýsi yfir vonbrigðum með að fjármálaráðherra hafi ekki afturkallað með öllu kröfulýsingar vegna lands í Vestmannaeyjum eins og farið var fram á í bréfi lögmanna bæjarins. Ekki verður annað séð en að kröfulýsingin sé byggð á veikum grunni þar sem eignarrétturinn liggur fyrir allt frá landnámi. Lögmenn Vestmannaeyjabæjar munu skila formlegri kröfulýsingu f.h. bæjarins til óbyggðanefndar fyrir tilsettan frest sem er 13. janúar nk.
Þessu tengt: Í hverju var endurskoðunin fólgin?
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst