Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur tekið jákvætt í erindi Laxeyjar ehf. um að stækka athafnasvæði félagsins í Viðlagafjöru. Fyrirtækið hyggst hefja vinnu við skipulagsbreytingar sem fela í sér að efnistökusvæði E-1, sem er um 5,1 hektari, verði fellt undir iðnaðarsvæði I-3.
Laxey vinnur nú að umhverfismati vegna fyrirhugaðrar stækkunar á framleiðslugetu úr 11.500 tonnum í allt að 42.000 tonn á ári. Þá eru einnig uppi áform um að reisa seiðaeldisstöð í Viðlagafjöru. Skipulagsvinnan verður unnin á kostnað fyrirtækisins í samstarfi við Vestmannaeyjabæ.
Í niðurstöðu ráðsins segir að ráðið fagni þeirri uppbyggingu sem þegar hefur orðið hjá Laxey og þeim jákvæðu áhrifum sem starfsemi fyrirtækisins hafi haft á samfélagið.
„Ráðið lýsir sig jákvætt gagnvart frekari stækkunarmöguleikum á athafnasvæði Laxeyjar í Viðlagafjöru og lýsir sig reiðubúið til að vinna með fyrirtækinu að áframhaldandi lóðastækkunum og breytingum í takt við vöxt og uppbyggingu þess,“ segir í bókun ráðsins.
Ráðið er hlynnt því að fela Laxey gerð deiliskipulagstillögu í nánu samstarfi við skipulagsfulltrúa. Jafnframt hefur skipulagsfulltrúi fengið það hlutverk að hefja vinnu við breytingu á aðalskipulagi samhliða. Ráðið leggur einnig áherslu á að ónýtt svæði verði sameinað óbyggðu svæði ÓB-3.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst