„Á Íslandi fellur landeldi, líkt og hjá Laxey, undir landbúnað en ekki sjávarútveg. Ástæðan er sú að starfsemin fer alfarið fram á landi og hefur meira sameiginlegt með búskap en hefðbundnum veiðum. Rekstrarformið snýst um að ala fisk við stjórnaðar aðstæður í kerfum og tönkum á landi, sambærilegt því hvernig bændur rækta plöntur eða halda búfé,“ segir Gyða Pétursdóttir verkefnastjóri Bændasamtaka Íslands um ástæðu þess að Laxey heyrir undir landbúnað en ekki sjávarútveg.
„Þess vegna fellur landeldið vel undir starfsemi Bændasamtaka Íslands, þar sem það nýtur sömu þjónustu og annar búskapur, meðal annars ráðgjafar, hagsmunagæslu og verkefna á sviði sjálfbærrar nýtingar og hringrásarhagkerfis. Landeldisdeild Bændasamtakanna var stofnuð árið 2023 og í stjórn hennar situr meðal annars Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður Laxeyjar.
Nýlega heimsóttu fulltrúar Bændasamtaka Íslands og Bændablaðsins Laxey í Vestmannaeyjum þar sem Óskar Jósúason tók á móti okkur og kynnti starfsemina. Það var mjög gagnlegt og áhugavert að fá innsýn í þetta öfluga fyrirtæki,“ segir Gyða.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst