Allt bendir til þess að miðjumaðurinn Guðmundur Þórarinsson leiki ekki með ÍBV næsta sumar, heldur haldi til Noregs í atvinnumennsku en hann var til reynslu hjá norska félaginu Sarpsborg 08. Þetta kemur fram í pistli Óskars Arnar Ólafssonar, formanns knattspyrnudeildar ÍBV sem hann birti á stuðningsmannasíðu ÍBV á facebook. Þar kemur jafnframt fram að unnið sé að því að halda þeim leikmönnum sem spiluðu fyrir ÍBV í sumar en þeir Rasmus Christiansen og Tonny Mawejje eru á leið til Noregs til reynslu. Hins vegar býst Óskar við að klára að semja við þá Abel Dhaira og Arnór Eyvar Ólafsson í vikunni.