Eyjafréttir sögðu fyrr í dag frá því að fulltrúaráð Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum hefði áhyggjur af komandi kosningum og veikri stöðu Páls Magnússonar oddvita þingflokksins vegna framgöngu hans í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga og á þessu kjörtímabili. Í kjölfarið á umfjöllun Eyjafrétta spurði Morgunblaðið Pál Magnússon út í stöðuna. Í viðtalinu sagði hann: „Líklega ætti Jarl [formaður fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum] nú að hafa þyngri áhyggjur af stöðu Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, þar sem hann er formaður fulltrúaráðsins, en stöðu hans í Suðurkjördæmi.“
Þegar Eyjafréttir báru þessi orð undir Jarl Sigurgeirsson formann Fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Vestmannaeyjum sagði hann að þegar kemur að Páli Magnússyni sé dónaskapurinn og hrokinn hættur að koma á óvart. „Það þarf sjálfsagt að leita lengi áður en finna má fordæmi fyrir því að þingmaður og hvað þá oddviti flokks stígi fram með þessum hætti. Hafa þarf hugfast að Sjálfstæðisflokkurinn í Vestmannaeyjum fékk 45,4% atkvæða og langflest í sveitarfélaginu. Fyrir Heimaey, flokkurinn sem Páll studdi, fékk eingöngu 34,2% og Eyjalistinn 20,3%. Ekki vantaði nema örfá atkvæði upp á að Sjálfstæðisflokkurinn héldi velli þrátt fyrir fordæmalausa framkomu oddvitans.“
Jarl segir að hann hafi fengið símtöl víða úr kjördæminu eftir þetta nýjasta útspil Páls. “Eðlilega velta Sjálfstæðismenn annars staðar í kjördæminu nú vöngum yfir því hvað oddvitanum þyki um þeirra frammistöðu. Einn af kjörnum fulltrúum sem hafði samband við mig nú fyrir skömmu benti mér til dæmis á að Sjálfstæðisflokkurinn fékk 38,4% í Árborg, 22,9% í Reykjanesbæ og 29,7% á Hornafirði. Allt talsvert minna en oddvitinn skammar sitt fólk í Eyjum fyrir að hafa fengið. Fólk sem gefur sig af lífi og sál í framboð og gerir sitt besta undrast því að sjálfur oddvitinn skuli svo gera lítið árangri flokksins í Vestmannaeyjum, einu af höfuðvíginu.“ Jarl segir engu líkara en að Páll geri sér ekki grein fyrir því að hann, sjálfur oddvitinn, hefði ekki þurft að leggja til nema 3 til 5 atkvæði til að meirihlutinn hefði haldið. „Atkvæði hans og fjölskyldu hans hefðu dugað“.
Jarl segir að því miður sé lítill sáttahugur í oddvitanum. „Ég hef verið virkur þátttakandi í starfi flokksins í á annan áratug. Ég hef aldrei gegnt stöðu kjörins fulltrúa, heldur eingöngu verið i grasrótinni og hingað til liðið vel þar. Ég veit hversu gaman þetta getur verið og hvað Sjálfstæðismenn geta verið eins og ein fjölskylda, þvert á kjördæmið, þegar leiðtoginn er sterkur. Eftir þann fjölda símtala og skilaboða sem ég hef fengið víða úr kjördæminu í dag veit ég að fólk saknar þess að eiga oddvita sem sameinar í stað þess að sundra. Oddvita sem þekkir kjördæmið, vinnur fyrir það og ber virðingu fyrir þeim sem að starfa í grasrótinni. Mín von er sú að í kjölfarið á næsta prófkjöri fáum við slíkan oddvita.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst