Litríkur ævintýrasöngleikur fyrir alla fjölskylduna
eftir Tryggva Má Sæmundsson
Dreitill skógardvergur (leikinn af Hrafnkeli Darra Steinssyni) og Maddamamma (leikin af Júlíönnu S. Andersen). Ljósmynd/Frosti Gíslason

Í gær var frumsýndur í leikhúsinu ævintýrasöngleikurinn Skilaboðaskjóðan, byggður á ástsælli barnabók Þorvaldar Þorsteinssonar frá 1986. Bókin naut mikilla vinsælda á sínum tíma og hefur síðan lifað góðu lífi í huga margra. Leikfélag Vestmannaeyja setti verkið síðast upp fyrir um tuttugu árum og því var sannarlega tímabært að rifja upp þetta skemmtilega ævintýri á ný.

Gleði, litadýrð og samvinna á sviðinu

Söngleikurinn segir frá Putta og Möddumömmu í Ævintýraskóginum – heimkynnum þar sem hvert tré geymir sögu og hvert horn nýja hættu. Þegar Nátttröllið rænir Putta með áform um að breyta honum í tröllabrúðu hefst kapphlaup við tímann. Íbúar skógarins sameinast í björgunarleiðangri áður en sólin sest, þó að nornin, úlfurinn og stjúpan séu síður en svo tilbúin að leggja hönd á plóg.

Útkoman er litríkt, lifandi og aðgengilegt fjölskylduverk þar sem húmor, tónlist og heillandi karaktersmíði leiða áhorfendur í gegnum ævintýralegt ferðalag.

Frá sýningunni. Ljósmynd/Frosti Gíslason

Sterkur hópur – bæði á sviði og bak við tjöldin

Alls koma fram rúmlega tuttugu leikarar, auk þess sem um þrjátíu manns starfa við fjölbreytt verkefni á bak við tjöldin. Ljósahönnuðir, búningafólk, smiðir, förðunarfræðingar, tæknifólk og fjölmargir aðrir leggja sitt af mörkum – og það sést í heildarmyndinni.

Óhætt er að segja að Leikfélag Vestmannaeyja hafi enn á ný sýnt hversu öflug starfsemi þess er. Fagmennska, samhent vinnubrögð og glögg tilfinning fyrir fjölskylduleikhúsi skila sér í vel upp settu verki sem heldur athygli jafnt barna sem fullorðinna.

Margir ungir og efnilegir leikarar

Leikstjóri sýningarinnar er Zindri Freyr Ragnarsson Caine, sem leiðir uppfærsluna af mikilli nákvæmni og ástríðu. Í leikskránni lýsir hann því hvað það þýðir fyrir hann að fylgjast með leikurum vaxa og dafna á æfingatíma, og segir meðal annars að það sé „ógleymanlegt að sjá hvernig samvinna, gleði og virðing getur skapað eitthvað magnað.“

Þessum orðum er auðvelt að taka undir, því það skín í gegn að hópurinn vinnur af hjarta og innlifun. Sérstaklega gaman er að sjá hversu margir ungir og efnilegir leikarar taka hér stórt skref fram á við. Ef fram heldur sem horfir má búast við að sjá þá oftar á sviði í nánustu framtíð.

Skilaboðaskjóðan – sýning sem gleður alla

Frumsýningarkvöldið hófst og endaði á gleði, fjöri og einlægum hlátri viðstaddra. Söngleikurinn heldur sérlega vel jafnvægi milli gamansemi og spennu, og tónlistin klæðir ævintýrið vel. Þetta er sýning sem talar til ímyndunaraflsins og minnir á gildi samvinnu, vináttu og hugrekkis. Takk fyrir gott kvöld og góða sýningu, allir hjá Leiokfélagi Vestmannaeyja. Það er samfélaginu mikilvægt að eiga jafn gott og öflugt félag sem tilbúið er að gefa af sér til okkar hinna. Það er ekki sjálfgefið. Til þeirra sem eiga eftir að sjá sýninguna þá má fylgjast með hvenær sýningar verða hér.

Ljósmynd/Frosti Gíslason

Næsta sýning

3. sýning – sunnudaginn 16. nóvember kl. 15:00  – MIÐAR FARA HRATT
📞 Sími: 852-1940
🎟️ Miðaverð: 4.200 kr.

Ljósmynd/Frosti Gíslason
Að lokinni frumsýningu. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS
Arnar Gauti Egilsson, varaformaður Leikfélagsins sagði nokkur orð að lokinni frumsýningu. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS
Leikstjórinn í leikslok. Eyjafréttir/Eyjar.net: TMS

Nýjustu fréttir

Góður mánudagur sem varð enn betri!
Fimm skip til loðnuleitar
Löndun Breka VE í Grundarfirði – flókið verkefni og fumlaus vinnubrögð
Gong slökun, endurstilling í hraða nútímans
Bæjarráð gagnrýnir samgönguáætlun
Elliði með fimm mörk í stórsigri Íslands
Herjólfur í Þorlákshöfn í dag og á morgun
Orkumálin til skoðunar hjá ráðherra
Eyjafréttir
Friðhelgisyfirlýsing

Þessi vefsíða notar fótspor til að við getum veitt þér bestu notendaupplifun. Upplýsingar um fótspor eru geymdar í vafranum þínum og framkvæma aðgerðir eins og að þekkja þig þegar þú kemur aftur á vefsíðu okkar og hjálpa teymi okkar að skilja hvaða hluta vefsíðunnar þér finnst áhugaverðast og gagnlegast.