Brotin voru lög við ráðningu hafnarstjóra. Dómsorð taldi málsmeðferð hafnarstjórnar ámælisverða og ekki lögum samkvæmt. Hafnarstjórn sinnti ekki rannsóknarskyldu sinni né veitti stefnanda andmælarétt. Ekki var sýnt fram á að leitast hafi verið við ráða hæfasta einstaklinginn og málsmeðferð Vestmannaeyjahafnar dró mjög úr raunhæfum möguleikum stefnanda á að verða ráðinn í starfið
Ítrekaðar viðvaranir Sjálfstæðismanna hunsaðar af meirihlutanum
Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins gerðu á sínum tíma alvarlegar athugasemdir við ráðningarferlið alveg frá því að það kom fyrst fyrir augu framkvæmda- og hafnarráðs. Þar reyndu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins að benda meirihlutanum á að lögum samkvæmt ætti hafnarstjórn að bera ábyrgð á ráðningunni, ásamt því að hæfniskröfum var breytt frá því sem ráðið og bæjarstjórn höfðu áður samþykkt. Telja má amk. 6 bókanir fulltrúa Sjálfstæðisflokks bæði í fagráðinu og bæjarstjórn þar sem ferlið var gagnrýnt og lagalegt réttmæti dregið í efa. Meirihlutinn hunsaði ekki bara slíkar bókanir heldur gagnrýndi fulltrúa minnihlutans harkalega og sagði þá ítrekað vera að ráðast að starfsfólki bæjarins þegar gagnrýnin beindist eingöngu að pólitískt kjörnum fulltrúum.
Meirihlutinn vildi ekki ræða málið opinberlega
Bæjarráð hefur ekki rætt þetta mál nema sem trúnaðarmál þar sem engar upplýsingar birtast opinberlega. Umræða um þennan lið var ekki á útsendri dagskrá 281. fundar framkvæmdar- og hafnarráð þrátt fyrir nýlega fallinn dóm sem er mikill áfellisdómur á störf framkvæmda- og hafnarráðs. Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í ráðinu fengu það þó inn með herkjum og bókuðu um það. Í kjölfarið óskuðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks eftir umræðu um málið á fundi bæjarstjórnar í gær þar sem það var loksins rætt fyrir opnum tjöldum. Þar var bæjarstjóri m.a. spurður af hverju meirihlutinn hafi ekki sýnt frumkvæði í að ræða þetta mál opinberlega. Hún sýndi málinu öllu þó engan áhuga og kom aldrei upp til svara. Tilraunir meirihlutans til þöggunar málsins eru augljósar.
Meirihlutinn firrar sig ábyrgð og sýnir enga auðmýkt í málinu
Á bæjarstjórnarfundi í gær var lítið um einlæga iðrun í málinu hjá meirihluta. Í bókun þeirra er reynt að afvegaleiða umræðuna og ekki gengist við sök í málinu. Þar er talað um formgalla og vitnað í upphæðir í dómnum. Lög voru brotin, brotið var á starfsmanni, umsækjanda um starf hjá Vestmannaeyjahöfn, um það er enginn vafi. Mistök gerast en það er ekki hægt að læra af þeim fyrr en maður viðurkennir þau og sýnir vilja til að gera betur.
Stjórnmálaafl stofnað m.a. til að bæta ráðningarmál fær á sig dóm um ólögmæta ráðningu
Þessi forherta afstaða meirihlutans í málinu er mjög miður, sérstaklega í ljósi þess að eitt helsta keppikefli fulltrúa meirihlutans við stofnun stjórmálaaflsins Fyrir Heimaey var að bæta ráðningamál hjá Vestmannaeyjabæ en endar á að fá á sig alvarlegan dómsúrskurð vegna ráðningarmála.
Samfélagið greiðir sakar- og málskostnað vegna brotalama stjórnsýslu
Þessi meirihluti skuldar ekki bara umræddum stefnanda afsökunarbeiðni, hann skuldar íbúum, sem á endanum greiða málskostnað og bætur, svör. Hann skuldar ekki síður fulltrúum minnihlutans afsökunarbeiðni fyrir þá meðferð sem þeir fengu þegar þeir reyndu hvað eftir annað að benda á brotalamir í ferlinu áður en til dómsmáls kom og sinntu þannig sínu lögbundna aðhaldshlutverki. Sá hroki, óbilgirni og yfirlætissemi sem birtist í bókunum meirihlutans og framkoma hans á þeim fundum þar sem málið var rætt er óásættanleg.
Bæjarfulltrúar bókuðu í gær athugasemdir vegna dómsins og óskuðu jafnframt eftir skriflegum svörum vegna spurninga þeim tengdum.
Að framansögðu gera fulltrúar Sjálfstæðisflokksins kröfu um að lögð verði fram opinberlega skrifleg svör við eftirfarandi spurningum:
Eyþór Harðarson
Gísli Stefánsson
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Margrét Rós Ingólfsdóttir
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst