Víðir Reynisson, sviðsstjóri almannavarna og oddviti Samfylkingarinnar í Suðurkjördæmi hefur frá árinu 2010 staðið í hringiðu stórra atburða. Var öryggisfulltrúi á Suðurlandi í Eyjafjallagosinu 2010 og Grímsvatnagosinu árið eftir sem bæði höfðu mikil áhrif. Hann bar ábyrgð á öryggi íslenska karlalandsliðsins þegar það reis hæst á EM í Frakklandi 2016 og HM í Rússlandi 2018. Færði sig um set til Ríkislögreglustjóra og fékk kófið í fangið og síðustu þrjú ár hafa jarðskjálftar og eldgos á Reykjanesi verið stærsta verkefni almannavarna. Þar hefur Víðir staðið í brúnni. Víðir er Eyjamaður, sonur Reynis Guðsteinssonar, skólastjóra Barnaskólans og Maríu Júlíu Helgadóttur og skírðu þau sveininn Guðmund Víði.
Víðir mætti á mánudaginn á fund í Eldheimum með Kristrúnu Frostadóttur, formanni Samfylkingarinnar, Sverri Bergmann og Ásu Berglindi Hjálmarsdóttur sem eru með honum á lista. Milli 50 og 60 manns mættu og var Víðir ánægður fundinn. „Það skiptir máli að fólk sem mætir taki þátt umræðum og þær urðu mjög líflegar á fundinum,“ segir Víðir. „Gott tækifæri fyrir okkur að geta svarað og ekki síður að nesta okkur upp fyrir framtíðina. Hvað það er sem brennur á fólki og fengum um það skýr skilaboð í málum sem snúa að Eyjum.“
Þar segir Víðir að tvennt hafi staðið upp úr, samgöngur og heilbrigðismál sem hann segir tengjast. „Mikið var rætt um sjúkraflugvél í Vestmannaeyjum sem mundi auka öryggi, t.d. fyrir fæðandi konur. Þá geti áætlunarflug fleiri mánuði á ári líka hjálpað til fyrir sjúklinga sem ekki þurfa sjúkraflugvél og eiga erfitt með að fara með Herjólfi og bíl. Landeyjahöfn fékk sitt pláss og við vorum spurð hvort við styddum rannsóknir á möguleikum þess að grafa jarðgöng milli lands og Eyja. Við gerum það en um leið bendum við á að tryggja þarf fleiri daga til dælingar í Landeyjahöfn. Líka þurfi að taka saman allar þær skýrslur sem til eru um höfnina og kanna hvort þar er að finna leiðir til fækka þeim dögum sem höfnin er ófær.“
Fiskveiðar, veiðigjöld og hvalveiðar
Víðir segir að umræða um líðan ungmenna hafi ekki síður verið áhugaverð. „Bent var á að erfitt er að fá skólasálfræðing til starfa og rætt um lýðheilsumál og fleira sem snýr að krökkunum. Um fundinn er það að segja að hann var mjög líflegur og skemmtilegur. Vestmannaeyingar skildu okkur eftir með mjög ákveðin skilaboð í þessum tveimur meginflokkum. Við ræddum líka efnahagsmálin og fiskveiðar, veiðigjöld og hvalveiðar.“
Aðspurður um hvalveiðar segir Víðir þær heimilar lögum samkvæmt en Samfylkingin sé á móti veiðum á hvölum. Það liggi m.a. í þeim aðferðum sem notaðar eru við veiðarnar sem ekki uppfylli kröfur um dýravernd. „En á meðan hvalveiðar eru leyfðar verður að fara að lögum. Við vorum t.d. ekki ánægð með afgreiðslu matvælaráðherranna, Svandísar og Bjarkeyjar um beiðni Hvals til að veiða hval. Vilji menn banna veiðarnar verður að koma fram frumvarp um það.“
Stefna Samfylkingarinnar er að hækka gjöld á fiskveiðar, sjóeldi og orku sem eru grunnurinn undir atvinnulífi á landsbyggðinni. Á fundinum nefndi Kristrún að hugmyndin væri að hluti gjaldanna yrði eftir í byggðunum. Hver er ykkar afstaða í því?
„Grunnurinn að þessum auðlindagjöldum er að hluti þeirra renni til þeirra sveitarfélaga þar sem þau verða til. Sama hvort það eru veiðigjöld, gjöld á vatnsréttindi og orku. Þar fari saman efling nærsamfélagsins og hluti fari í þá samneyslu sem ríkið borgar,“ segir Víðir en hvernig leggst laugardagurinn í hann?
„Hann leggst bara vel í mig. Við erum búin að vera á ferðinni um allt kjördæmið og hitt fólk í öllum sveitarfélögunum 19. Erum full bjartsýni. Finnum að okkar málflutningur nær til fólks og ekki síður það traust sem Kristrún hefur til að leiða nýja ríkisstjórn. Það er okkar markmið og við erum mjög bjartsýn á að það skili sér á laugardaginn,“ segir Víðir að endingu.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst