Ný könnun Þjóðarpúls Gallup sýnir að fylgi Miðflokksins eykst verulega í Suðurkjördæmi og er hann nú orðinn stærsti flokkur kjördæmisins með 30,8% fylgi. Samfylkingin mælist nú með 25,5% fylgi, og er þar með næststærsti flokkur kjördæmisins, á meðan Sjálfstæðisflokkurinn er þriðji stærsti flokkurinn með 20,9%.
Samkvæmt nýjustu könnuninni, sem Gallup framkvæmdi dagana 3. til 30. nóvember 2025, mælist Miðflokkurinn með 30,8% fylgi í Suðurkjördæmi og er þar með stærsti flokkur kjördæmisins, en Samfylkingin er í öðru sæti með 25,5% fylgi. Sjálfstæðisflokkurinn heldur áfram að tapa fylgi og fer úr 23,5% í 20,9%, á meðan Framsóknarflokkurinn hækkar úr 5,8% í 6,6%.
Flokkur fólksins missir jafnframt fylgi, úr 9,9% niður í 5,9%, og Viðreisn lækkar úr 8,8% í 6,2%. Sósíalistaflokkur Íslands fer úr 1,7% í 0,6%, Píratar mælast nú með 1,8% í stað 2,1%, Vinstri græn halda sig í 1,2%, og aðrir flokkar mælast óbreyttir með 0,4%.
Á landsvísu heldur Samfylkingin forystu með 31,1% fylgi, samkvæmt nýjustu Þjóðarpúls-könnun Gallup. Miðflokkurinn heldur þó áfram að sækja í sig veðrið og mælist nú með 19,5%, hækkun um rúm þrjú prósentustig frá fyrri mælingu.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 16,5%, Viðreisn 12,8%, Framsókn 5,6%, Flokkur fólksins 5,2%, Píratar 3,3% og Vinstri græn 3,2%.
Stuðningur við ríkisstjórnina er 59%, sem er tveimur prósentustigum minna en í síðustu könnun. Slétt 6% myndu skila auðu eða ekki kjósa, og 13% taka ekki afstöðu.
Könnunin var framkvæmd dagana 3.–30. nóvember 2025, heildarúrtak 10.332 manns og þátttökuhlutfall 41,8%. Vikmörk eru 0,5–1,5 prósentustig eftir stærð flokka. Það er RÚV sem deilir niðurstöðum þjóðarpúlsins með Eyjafréttum.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst