Minnisvarðinn á Eldfelli mikið mannvirki
30. mars, 2024
Tölvugerð mynd gerð af Eyjar.net byggð á lýsingu Náttúrustofnunar en fyrst og fremst til að fanga athygli lesanda. Mynd/Eyjar.net

Á fundi bæjarstjórnar í febrúar var lögð fram tillaga frá bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins þar sem segir að í ljósi verulegra tafa á framkvæmd og afhendingu minnisvarða í tilefni hálfrar aldar afmælis Heimaeyjargossins sem nú er liðið, yfirvofandi óafturkræfs inngrips í dýrmæta náttúru Vestmannaeyja og fyrirsjáanlegs vaxandi framkvæmdakostnaðar leggja fulltrúar Sjálfstæðisflokksins til að staldrað verði við.

Ekki liggur fyrir kostnaðargreining á afmörkuðum hlutum verkefnisins auk þess sem hluti listaverksins er göngustígagerð í Eldfelli þar sem ekki liggur fyrir ásýnd, né hve umfangsmikil framkvæmdin er.

Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að það liggi fyrir ítarlegri kynning á verkefninu, stöðu þess, kostnaðarmat og svo framvegis.

Í framhaldi af þeirri kynningu var lagt til að málið verði sett í íbúakosningu enda varðar málefnið eina dýrmætustu og yngstu náttúruperlu og söguheimild Vestmannaeyja, sagði í tillögu minnihlutans.

Var málinu vísað til bæjarráðs til frekari umfjöllunar. Eyjar.net ræddi við Margréti Rós Ingólfsdóttur sem bar upp ofangreinda tillögu á fundinum.

Umfangsmeira verk krefst íbúakosningar

Aðspurð af hverju þau hafi lagt þetta til segir hún að þau leggi til að málið fari í íbúakosningu þar sem ljóst sé að verkið er bæði dýrara og umfangsmeira heldur en lá fyrir í upphafi. Þá er ljóst að inngrip í náttúruna er mun meira en okkur var kynnt í upphafi. Þar sem um er að ræða mjög mikilvægt og merkilegt svæði í sögu Vestmannaeyja finnst mér ekki óeðlilegt að íbúar hér fái að segja sína skoðun.

Nú er verið að tala um að þetta verði hreinlega mannvirki, m.a. stíg sem liggur í hring allan gíginn. Hafa bæjarfulltrúar fengið að sjá útfærðar hugmyndir af minnisvarðanum? 

„Já, það er rétt. Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna málsins kemur fram að almennt sé æskilegt að göngustígar falli vel að náttúrunni og að þeir séu lítið áberandi. Mat þeirra er að hér eigi að fara þveröfuga leið. Miðað við þau gögn sem þeim voru kynnt eigi vestari hluti göngustígsins mikið til að vera á sömu slóðum og eldri stígar en sá eystri eigi að fara upp gíginn þar sem hann er það brattur að ekki er æskilegt leggja stíg án þess að vera með handrið, hvíldarpalla og mögulega lýsingu öryggisins vegna. Óvíst er hversu mikla festingu er að fá í gjallinu og því verður um mikið mannvirki að ræða að mati Náttúrufræðistofnunar.
Bæjarfulltrúar minnihlutans hafa ekki fengið að sjá almennilega útfærslu þar sem liggur fyrir endanlegar útlitsteikningar, efnisval, litaval og svo framvegis.“

Margra mánaða vinna og eitthvert hlýtur sá reikningur að fara

Spurð hvort Vestmannaeyjabær hafi sett fjármuni nú þegar í verkefnið segir Margrét að þeim hafi verið sagt að Vestmannaeyjabær hafi einungis sett fjármagn í málið til skipulagsvinnu. Hins vegar er ljóst að umræddur listamaður hefur unnið í verkinu til margra mánaða og eitthvert hlýtur sá reikningur að fara.

Er Margrét Rós er spurð um hvort bæjarfulltrúar meiri- og minnihluta hafi rætt áfram um þessa tillögu segir hún að bæjarfulltrúar meirihlutans hafi að minnsta kosti ekki rætt við hana um málið eftir að hún lagði fram tillöguna en bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru einhuga um tillöguna.

Vonar að fólk virði það við sig að skipta um skoðun ef sannfæring hennar segir svo

Nú kom fram á fundi bæjarstjórnar að þú hafi upphaflega samþykkt tillöguna um byggingu minnisvarða – hvað breyttist?

„Í upphafi var rætt um að gera minnisvarða í tilefni 50 ára gosloka. Vestmannaeyjabær myndi leggja í minnisvarðann 50 milljónir og íslenska ríkið 70 milljónir. Því var ég samþykk. Eftir því sem á leið sá ég að ekki var um að ræða hefðbundinn minnisvarða heldur eitthvað sem sannfæring mín segir mér að ég geti ekki verið hlynnt. Ég vona að fólk virði það við mig að skipta um skoðun ef sannfæring mín segir svo. Ég er bara ekki tilbúin til þess að veðja á að þetta verði bara fínt eða allt í lagi og vakna svo upp við vondan draum seinna meir.“

Spurð um hver næstu skref séu í málinu svarar hún því til að hennar mati þurfi að taka afstöðu til tillögunnar um íbúakosninguna. Málið var tekið fyrir í bæjarráði þar sem var bókað að málið sé í farvegi. Ég veit ekki hvað það þýðir nákvæmlega.

https://eyjar.net/vilja-ibuakosningu-um-minnisvarda/

 

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst