Mikið af ævi minni hef ég alið manninn norðan Strandvegs og er ég svo sem ekki sá eini hér í eyjum sem það hefur gert. Maður byrjaði á bryggjunum að veiða, þvældist niður í Völund til pabba og kíkti á kallana, stal eins og svo margir aðrir peyjar slippbátnum og réri út í löngu. Fór á taugum ef Lóðsinn sem var nokkurskonar fljótandi löggubíll hreyfði sig. Skilaði að lokum bátnum og fékk í leiðinni efni í boga, eða krækti jafnvel í karbítbút sem sendi lok af matarsódabauk upp fyrir hæstu húsþök.