Einn mesti ljóður á vinnu í bæjarstjórnum á Íslandi er samskiptaleysi og samráðsleysi milli meirihluta og minnihluta. Meirihlutinn ræður eðlilega en alltof oft gerir hann það einn og sér og minnihlutinn er settur út í horn þar sem hann þarf að híma næstu fjögur árin. Allar tillögur meirihlutans ganga í gegn í krafti meirihluta atkvæða í bæjarstjórnum og minnihlutinn er á móti þó oft sé um að ræða góð mál, bæjarfélaginu til heilla. Og að sama skapi eru flestar tillögur minnihlutans slegnar út af borðinu sama hversu góðar sem þær kunna að vera. Ástæðan er helst sú að þær koma frá röngum aðila eða flokki.