Um áramót – Margrét Rós Ingólfsdóttir – Bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins
Á vettvangi bæjarmálanna einkenndist árið 2025 af baráttu bæjarstjórnar við ríkisvaldið og baráttu gegn hækkandi skattheimtu og álögum á fyrirtæki og á vinnandi og venjulegt fólk. Þessi aukna skattheimta er óþolandi og kemur mest niður á einmitt, venjulegu fólki. Á meðan ríkir algjört skilningsleysi á málefnum Vestmannaeyja. Vatnslögnin, samgöngur og dýpkun, hækkað raforkuverð og fleira mætti nefna. Bæjarstjórn hefur ítrekað bókað um þessi atriði en árangur næst ekki með orðum á blaði. Það er í mínum huga ljóst að við þurfum öflugri hagsmunagæslu.
Nú stendur yfir útboð vegna dýpkunar í Landeyjahöfn og verða tilboðin opnuð 10. febrúar nk. Í því útboði verður að tryggja að veitt verði viðunandi þjónusta fyrir okkur því óbreytt staða er ekki boðleg samfélaginu okkar. Við höfum sofið á verðinum hvað þetta varðar og við vitum öll að hægt er að gera betur, við sem búum hér höfum öll séð það.
Ég hef miklar áhyggjur af því í hvaða farveg orkumál okkar eru. Þeir sem að komu vissu hvað verið var að samþykkja með því að styðja orkuskipti sem byggja á því að færa notendur yfir í dýrari forgangsflutning. Allt talið um græna framtíð í stað þess að segja íbúum sannleikann um reikninginn var slæmt. Þar liggur ein ástæða fyrir því að rafmagnsferjan Herjólfur siglir á olíu og orkukostnaður heimila og fyrirtækja rýkur upp. Nú sjá allir að þetta var bein og fyrirsjáanleg afleiðing pólitískra ákvarðana.
Á persónulegri nótum þá skiptir það mig miklu máli að búa í samfélagi þar sem öll fá að njóta sín og hafa tækifæri til vaxtar og framfara. Því er mikilvægt að þjónusta við þá einstaklinga sem glíma við áskoranir, t.d börn með fatlanir og ungmenni í geðrænum -og/eða í fíknivanda sé aðgengileg. Minn starfsferill hefur legið í því að vera til aðstoðar við þessa einstaklinga og fjölskyldur þeirra og þar liggur mitt hjarta. Við í Vestmannaeyjum erum til fyrirmyndar hvað varðar velferðarþjónustu en alltaf má gera betur.
Árið 2026 er kosningaár þar sem við kjósum okkur fulltrúa í nýja bæjarstjórn og mun á næstu vikum koma í ljós hvaða flokkar verða í framboði og hvaða einstaklingar munu vera í framboði hvar. Spennandi tímar framundan. Á sama tíma verður kosið um vilja Eyjamanna til þess að grafa inn í hraunið við miðbæinn. Að mínu mati algjörlega ótímabær kosning en kosningin mun þó tikka í box núverandi meirihluta um íbúalýðræði eftir að hafa ítrekað synjað tillögum fulltrúa Sjálfstæðisflokksins um slíkt, t.a.m. varðandi rándýran og óþarfan minnisvarða á Eldfellið. Ég er auðmjúk gagnvart því tækifæri að hafa fengið að starfa fyrir bæinn okkar og tek því ekki sem sjálfsögðu.
Gleðilegt ár kæru vinir, ég vona þess að árið verði öllum gott og gæfuríkt.
Skrifað að beiðni Eyjafrétta sem fengu nokkra menn og konur til að líta yfir liðið ár og fram á veginn.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst