Eyjafréttir munu berast áskrifendum í dag auk þess að vera til sölu í Tvistinum og á Kletti. Að venju er blaðið stútfullt af áhugaverðu efni. Meðal annars er úttekt á Laxey sem þegar er orðin stærsta verkefni í sögu Vestmannaeyja og er langt í frá lokið. Nýtt skip Ísfélagsins, Sigurbjörg ÁR er mikið tækniundur þar sem tæknin er nýtt til að létta áhöfninni störfin, auka öryggi og bæta gæði afla sem skipið kemur með að landi.
Eins og í undanförnum blöðum er skólamálum gerð skil og rætt er við okkar unga og efnilega fólk í fótboltanum sem fékk Fréttabikarana. Þá er Sigurgeir í Þorlaugargerði ekki af baki dottinn og er að gefa út sína 14. bók í samstarfi við sonardótturina, Katrínu Hersisdóttur.
Annika boðin velkomin
Talsverðar mannabreytingar hafa orðið á ritstjórn Eyjafrétta á liðnum mánuðum. Í sumar létu af störfum Díana Ólafsdóttir og Sindri Ólafsson. Salka Sól Örvarsdóttir kom inn í starf blaðamanns í sumar og hélt utan til náms í haust. Er þeim öllum þakkað fyrir góð störf á miðlinum. Um síðustu mánaðarmót bættist við góður liðsauki á ritstjórnina, þegar Annika Vignisdóttir hóf störf sem blaðamaður. Annika er með B.sc í sálfræði auk þess að hafa lokið mastersnámi í markaðsfræðum. Er Annika boðin velkomin til starfa. Eins og áður halda Ómar Garðarsson og Tryggvi Már Sæmundsson um stjórnartaumana.
Eins og tryggir lesendur hafa orðið varir við hefur orðið breyting á útgáfu Eyjafrétta sem koma út einu sinni í mánuði. Með þessu er verið að bregðast við breyttu umhverfi í blaðaútgáfu og miðlun frétta. Áherslan er að gefa út efnismikið og vandað blað og auka kraftinn í fréttamiðlinum okkar, eyjafrettir.is. Hefur hann eflst til muna eftir sameiningu við eyjar.net. Sameinaðir standa þeir undir nafni sem alvöru fréttamiðill.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst