„Ég er mjög þakklátur þeim sem hafa staðið í stafni í þessu stóra verkefni, Rafeyri á Akureyri, Vélsmiðjan Þór, Skipalyftan, Miðstöðin, Brink og Steini og Olli, allt fyrirtæki sem stóðu sig alveg gríðarlega vel í þessu stóra verkefni sem hrognahúsið er. Frá upphafi voru menn tilbúnir að taka tillit hver til annars. Þetta varð að gerast á milli vertíða og allir stilltu sig inn á það. Ákvörðun um að byggja nýtt hrognahús var tekin fyrir 28 mánuðum. Fyrra árið var gert það sem hægt var án þess að trufla vinnsluna,“ Stefán Friðriksson, framkvæmdastjóri um nýja hrognastöð sem félagið tók í notkun í upphafi hrognavertíðar á loðnunni.
Allt varð að ganga upp til að tímasetning stæðist og með því að stilla saman strengi tókst það. Strax eftir vertíðina í fyrra var öllu rutt út úr gamla húsinu á einni helgi og allir tilbúnir að vinna saman. „Það var alveg ljóst að þetta varð að vera tilbúið á réttum tíma. Við undirbjuggum okkur og gerðum það sem hægt var á fyrra árinu og svo var keyrt á það. Allir meðvitaðir um að allt yrði að vera klárt, annað var ekki í stöðunni,“ segir Stefán og nefnir þá sem höfðu yfirumsjón með verkinu.
Öflugur hópur
Björn Brimar framleiðslustjóra, Eyþór Harðarson útgerðarstjóra, Jónas Þorsteinsson rafvirkja og Pál Scheving verksmiðjustjóra. „Sérstaklega vil ég nefna Guðlaug Friðþórsson, Lauga vélstjóra. Hefði hann ekki lagst á þetta verkefni af öllum sínum þunga værum við ekki að framleiða hrogn í dag. Hann á fálkaorðuna skilið fyrir sitt framlag. Það er ómetanlegt að hafa menn sem brenna fyrir það sem við erum að gera. Þetta hefði aldrei verið hægt öðruvísi.
Það á við alla, líka þá sem sköffuðu búnaðinn. Menn voru meðvitaðir um hvað var í húfi og við erum að uppskera eins og þeir sáðu. Er ég mjög þakklátur fyrir það því það er ekkert þægilegt að rífa heilt hús og raða upp aftur. Verkinu þarf að ljúka á ákveðnum degi og það hafðist með góðu fólki og góðu skipulagi. Þar voru Laugi,Jónas og Eyþór í stafni. Laugi sá um að tryggja að allur búnaður og efni skilaði sér á réttum tíma fyrir iðnaðarmenn. Þetta tókst þrátt fyrir áhrif Covid og stríðsins í Úkraínu,“ sagði Stefán.
Ekki um annað að ræða
Stefán segir að gamla hrognahúsið hafi bæði verið of lítið og úr sér gengið og ekki um annað að ræða en að ráðast í miklar framkvæmdir. „Það fyrsta sem við gerðum var að reisa tankana sem landað er í og taka samtals um 2000 rúmmetra. Þeir hafa reynst vel og flýtt fyrir. Sem dæmi þá fór Sigurður út í gær og hann var byrjaður að veiða áður en við kláruðum að vinna aflann úr honum. Þessir tankar geta alveg jafnast á við eitt i skip vegna styttri inniveru skipanna,“ segir Stefán.
„Í verksmiðjunni sjálfri er frábær aðstaða, hátt til lofts og vítt til veggja, bjart og góð aðstaða fyrir starfsfólkið og fullkominn búnaður til að kútta loðnuna og vinna hrognin. Áhersla er lögð á góða yfirsýn og þægilega vinnuaðstöðu. Við nýtum svo leiðslurnar sem við lögðum frá Fesinu, kílómetra leið, að frystihúsinu í Friðarhöfn og dælum hrognunum yfir sem við höfum gert í mörg ár með góðum árangri. Umferð um Strandveginn minnkaði og hreinlæti er eins og best verður,“ segir Stefán og leggur áherslu á mikilvægi hreinlætis.
Miklar kröfur
„Varan sem við skilum er ekkert meðhöndluð af kaupendum og gerðar miklar kröfur um hreinlæti sem við þurfum að uppfylla. Hrognin eru m.a. notuð í sushi, þau eru lituð og notuð sem skraut á ýmsa rétti. Líka í salat og smyrjur. Hrein hrogn sem er gott að lita og vinna með.“
Stefán segir í raun furðulegt hvað markaður fyrir loðnuhrogn er stór. „Við erum að keppa við síldarhrogn og flugfiskahrogn en okkar staða er sterk og er ástæðan fyrir því að við erum að byggja upp öfluga stöð sem aðeins er keyrð tvær til þrjár vikur á ári.“
Stefán segir að byggt sé á hefðbundinni aðferð við vinnslu á hrognunum og það fari eftir þroska þeirra og innihaldi hvernig gengur að ná þeim. „Við getum kúttað og hreinsað mikið magn og afkastað miklu á stuttum tíma en það er vinnslugeta bræðslunnar sem ræður hraðanum þannig að við reynum að vanda okkur með allt hráefni sem við fáum. Í hrognaframleiðslunni er þroskinn númer eitt, ferskleikinn númer tvö og hreinsunin númer þrjú.
Allt þarf að vinna saman
Skipin geta ekki verið lengi að veiðum eða við bryggju og það þarf að vanda hreinsunina. Ekki fara hraðar en búnaðurinn leyfir. Í frystihúsinu er lokaþvotturinn og þurrkun áður en hrognunum er pakkað og þau fryst. Við bestu skilyrði er hægt að vinna úr 2.400 tonnum af loðnu á sólarhring en þá myndum við fá svo mikið af hrognum að frystihúsið réði ekki við að hreinsa þau, þurrka og pakka. Keyrslan fer eftir því hvað er af hrognum í farminum og við reynum að halda jafnri keyrslu þannig að þægilegt sé að eiga við þetta í frystihúsinu.“
Japan er mikilvægur markaður fyrir frysta loðnu og loðnuhrogn en þau seljast víðar. „Markaðurinn er fyrst og fremst í Asíu og Austur-Evrópa var stór. Það hafði mikil áhrif þegar Rússar bönnuðu innflutning á sjávarafurðum frá Íslandi árið 2015 og núna hefur stríðið í Úkraínu einhver áhrif. Auk Japans erum við að selja loðnuafurðir til Kína, Tælands, Kóreu, Bandaríkjanna og Kanada. Vestur-Evrópa er ekki mjög stór en alltaf fer eitthvað á Austur-Evrópu. Úkraína kaupir ekki mikið af hrognum en þá vantar mat og kaupa síld, makríl og loðnuhæng. Það var mikið högg fyrir okkur þegar Rússarnir lokuðu á okkur eftir að Vesturveldin beittu þá refsiaðgerðum og við sitjum í súpunni á meðan Grænland og Færeyingar geta ennþá selt sjávarafurðir til Rússlands.“
Í vetur var líka tekinn í notkun nýr löndunarbúnaður fyrir FES-ið. „Það var kominn tími á húsið og búnaðinn og nú er löndunaraðstaðan og hrognavinnslan algjörlega aðskilin,“ sagði Stefán en hvað er þetta mikil fjárfesting?
„Þetta er dýrt en það er ekki tjaldað til einnar nætur. Það komu margir að verkinu og margir ofan af landi. Það sem skiptir mestu er að við erum ánægðir með útkomuna og hrognahúsið á eftir að koma Ísfélaginu til góða á næstu árum.“
Mynd: Stefán og framvarðarsveitin, Jónas, Guðlaugur og Björn Brimar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst