„Ef ég hefði verið lengur þá hefði strætó bara hætt að ganga“
Í tilefni þúsund ára byggðar á Íslandi var haldin þjóðhátíð 2. ágúst 1874 í höfuðborginni. Danakonungur kom þá meðal annars í heimsókn og var Íslendingum færð ný stjórnarskrá. Sama dag var lélegt sjólag og Eyjamönnum ekki kleift að komast upp á land og taka þátt í hátíðarhöldunum. Þess í stað héldu þeir þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og hafa gert öll ár til þessa. Við litum við inn á Hraunbúðir og fengum að tala við öðlingana Palla í Mörk og Freyju á Nýlendu sem hafa verið á ófáum þjóðhátíðum í gegnum tíðina.
Palli í Mörk
Palli var í fullum gangi við að sortera dós með 12 þúsund perlum eftir lit þegar blaðamaður þefaði hann uppi. Palli sem verður 98 ára í desember þykir einkar handlaginn en hann er duglegur við að dunda sér við að perla, og þá málar hann líka og lagfærir dvergastyttur fyrir Eyjamenn. Hann hefur mætt á þó nokkrar þjóðhátíðir á lífsleiðinni en missti þó af einhverjum þegar hann var á sjó og þegar hann bjó fyrir norðan fyrst til að byrja með.
Hver er fyrsta minningin frá þjóðhátíð? „Það er bara gleði og glaumur,“ segir Palli.
Hver er hápunktur hátíðarinnar fyrir þér? „Bara allt mögulegt, allt hvað öðru betra. Dagskráin er dásamleg og fjörið í tjöldunum eftir dagskrána. Þetta er bara allt dásamlegt. Það er ekki hægt að lýsa einhverju einu, það er bara allt. Bara til fyrirmyndar þessi þjóðhátíð og fólkið sem að kemur hingað er til fyrirmyndar líka, upp til hópa.“ Honum finnst gaman að sjá fjöldann sem mætir prúðbúinn á setninguna og finnst alltaf vera að aukast í.
Á að mæta í Dalinn í ár? „Já, að sjálfsögðu. Ég var í fyrra alla daga til klukkan tvö um nóttina. Ef ég hefði verið lengur þá hefði strætó bara hætt að ganga“ segir Palli og hlær.
Freyja á Nýlendu
Freyja er elsti íbúi Vestmannaeyja en hún átti 100 ára afmæli 26. júní síðastliðinn. Blásið var til veislu á Hraunbúðum og fékk Freyja afhent skjal frá fráfarandi forseta, Guðna Th. Jóhannessyni, sem svo merkilega vill til að deilir afmælisdegi með Freyju.
„Ég á svo fallegan upphlut og var alltaf í honum á Þjóðhátíð. Útlendingarnir eltu mann alltaf alveg hreint og fannst hann voðalega fallegur. Ég man svo vel eftir krakka sem var í fólksbíl og keyrði framhjá og hann sneri sér svo við í sætinu til að horfa á mig til þess að sjá aftan á. Já, þetta var fallegt. Svo voru útlendingar, þeir tóku voða mikið myndir af manni,“ segir Freyja sem tók virkan þátt í hátíðarhöldunum með kirkjukórnum sem hún söng með í 30 ár.
Hver er hápunktur hátíðarinnar fyrir þér? „Það var alltaf gaman fyrir þá sem voru mikið fyrir dans, það var voða gaman. En bóndinn minn var ekkert mikið fyrir dans“ segir Freyja og flissar. „En þegar það er gott veður, að koma svona saman úti, þetta getur verið yndisleg stund. Gott að fólk kemur saman og það kynnist kannski. Þetta er bara ágætt,“ segir Freyja og bætir við að konurnar hafi oft verið svo flinkar að baka.
Bakaðir þú líka? „Jú, ég bakaði einhvern tímann einhverja kökuklessu. Ef ég bakaði þá bakaði ég flatkökur. Ég bakaði svo góðar flatkökur. Það var „special“ hjá mér. Ég bakaði niðri í kjallara og hafði opinn glugga og allir sem löbbuðu framhjá gerðu hnuff hnuff, hvaða lykt er þetta? Hnufff, „what are you doing?“ og margir sem að töluðu ensku komu stundum bara alveg inn í gluggann til þess að vita hvað þetta væri,“ segir Freyja sem ætlar að sjá til hvernig heilsan verður upp á að mæta um helgina.
Salka Sól – Úr þjóðhátíðarblaði Eyjafrétta.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Til að geta skoðað nánari upplýsingar þarftu að vera áskrifandi og vera skráður inn.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst