Eyjafréttir hafa undanfarna daga fjallað um áhrif nýrrar orkuverðskrár í Vestmannaeyjum, sem tók gildi 1. janúar. Í kjölfarið hefur rafmagnsferjan Herjólfur hætt að hlaða í heimahöfn og atvinnurekendur lýst stöðunni sem „hreint út sagt hræðilegri“. Af því tilefni leituðu Eyjafréttir svara hjá Landsnet um forsendur breytinganna og afstöðu fyrirtækisins.
Að sögn Einars Snorra Einarssonar, forstöðumanns skrifstofu forstjóra Landsnets, er ekki rétt að tala um gjaldskrárhækkun á flutningi raforku til Vestmannaeyja um síðustu áramót.
„Engin gjaldskrárhækkun átti sér stað fyrir flutning raforku til HS Veitna um áramótin. Þvert á móti lækkaði gjaldskrá fyrir forgangsflutning raforku til dreifiveitna um 8,5% þann 1. janúar 2026,“ segir Einar.
Hann útskýrir að breytingin felist í því að flutningur raforku til Vestmannaeyja miðist nú við almenna gjaldskrá fyrir forgangsflutning, líkt og hjá öðrum dreifiveitum landsins, en ekki við gjaldskrá fyrir skerðanlegan flutning eins og áður.
Einar rekur að ákvörðunin um að bæta afhendingaröryggi og aðgengi að orku tengist beint þeirri alvarlegu stöðu sem kom upp þegar aðalraforkustrengur til Vestmannaeyja bilaði í janúar 2023.„Um langt skeið hefur raforkuöryggi til notenda í Vestmannaeyjum verið til umræðu. Þegar aðalstrengur raforku til Eyja bilaði í janúar 2023 var staðan metin alvarleg,“ segir hann.
Viðgerðir á sæstrengjum taki langan tíma og á meðan hafi bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum lagt mikla áherslu á að tryggja raforkuöryggi til framtíðar. Í kjölfarið hafi verið undirrituð viljayfirlýsing í febrúar 2024 milli ráðuneytisins, Landsnets, bæjarstjórnar og hagsmunaaðila í Eyjum, sem lagði grunn að lagningu Vestmannaeyjastrengja 4 og 5.
Aðspurður um gagnrýni á kostnaðaraukningu segir Einar að það hafi legið fyrir frá upphafi að verðskráin yrði önnur þegar fullt afhendingaröryggi yrði tryggt.
„Það lá fyrir frá upphafi að verðskráin væri önnur þegar um fullt afhendingaröryggi yrði að ræða og aðgengi að orku stórbætt og var til dæmis sérstaklega minnst á það í viljayfirlýsingunni“ segir hann.
Skerðanlegur flutningur sé mun ódýrari, enda geti Landsnet þá skert afhendingu án fyrirvara og án skuldbindinga. Forgangsflutningur feli hins vegar í sér fulla þjónustu og afhendingaröryggi. En skerðanlegur flutningur er einungis í boði á þeim stöðum sem ekki hægt er að veita fulla þjónustu.
„Vegna þess að forgangsflutningur og skerðanlegur flutningur eru mismunandi vörur er samanburður erfiður,“ segir Einar og bætir við að miðað við sama raforkumagn sé heildarreikningur viðskiptavinar Landsnets í Vestmannaeyjum um 30% hærri en áður.
Spurður hvort lagt hafi verið heildstætt mat á áhrif breytinganna á Vestmannaeyjar segir Einar að Landsnet líti ekki á Eyjarnar sem einangrað raforkusvæði.
„Eins og Landsnet horfir á hlutina eru Vestmannaeyjar ekki einangrað raforkusvæði, heldur hluti af raforkukerfi landsins, enda er þar nú aðgengi að orku og orkuöryggi nú með því besta sem gerist“ segir hann.
Með tilkomu nýju strengjanna hafi hafist nýr kafli í raforkusögu Vestmannaeyja, með auknu afhendingaröryggi og betra aðgengi að orku. Hann nefnir sem dæmi að fyrirtækið Laxey hafi nýverið bæst í hóp stórnotenda, sem hafi verið mögulegt vegna aukins orkuaðgengis og orkuöryggis.
Varðandi samráð við helstu notendur raforku í Vestmannaeyjum, þar á meðal rekstraraðila Herjólfs, segir Einar að vísa beri til vinnu ráðuneytisins og viljayfirlýsingarinnar frá febrúar 2024 „Mikið samráð og samtal hefur átt sér stað við hagaðila í Eyjum, bæði fyrir og eftir undirritun viljayfirlýsingarinnar,“ segir hann.
Aðspurður um mögulegar sértækar lausnir segir Einar að gjaldskrá Landsnets byggi á jafnræði. „Sértækar lausnir, ef þær eru til staðar, væru þá í boði fyrir allar dreifiveitur sem uppfylla ákveðin skilyrði,“ segir hann.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst