Í 17 ár hefur Margrét Rós Ingólfsdóttir staðið vaktina í áfallateymi og sálgæslu á Þjóðhátíð. Teymið er staðsett í sjúkraskýlinu ásamt lækni, hjúkrunarfræðingum og sjúkraflutningamönnum.
Hvað fer fram í skýlinu? „Í skýlið koma þeir sem þurfa aðhlynningu annað hvort okkar eða heilbrigðisstarfsmanna. Snúnir ökklar, skurðir og ýmislegt annað alvarlegra kemur inn á borð læknis og hjúkrunarfræðinga en til okkar leita m.a. einstaklingar sem finna til vanlíðunar eða kvíða sem og þolendur ofbeldis“ segir Margrét.
Hvaða aðstoð veitið þið? „Það fer allt eftir eðli og umfangi máls. Í flestum tilfellum nægir að eiga gott samtal og að tryggja öryggi viðkomandi, t.d að viðkomandi fari heim eða í tjald að sofa í fylgd með öðrum en í sumum tilfellum þarf að kalla til lögreglu eða fá mat læknis á stöðu viðkomandi. Öllum málum er svo fylgt eftir með fundi eða símtali daginn eftir.“
Margrét segir að það sé frábært að fylgjast með störfum gæslunnar og allra í skýlinu. „Þetta er allt mjög skilvirkt og allir með sín hlutverk á hreinu. Ég þori að fullyrða að hvergi í heiminum er eins viðbragð á útihátíðum og er hér og af því má ÍBV vera stolt og mín skoðun er að það má tala meira um starfið sem fer fram í skýlinu.“
Er Margrét með skilaboð til gesta? „Já, góða skemmtun til allra en förum varlega, hjálpum hvoru öðru og spyrjum t.d „Er allt í lagi?“ ef okkur grunar að einhver þarfnist aðstoðar.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst