Uppsjávarskipið Pathway kom til Vestmannaeyja í morgun. Skipið var með um 2300 tonn af kolmunna sem landað er hjá Ísfélaginu. En Ísfélagið festi einmitt kaup á skipinu í fyrra og var um það samið að það yrði afhent í maí nk.
Páll Scheving Ingvarsson, verksmiðjustjóri FES, fiskimjölsverksmiðju Ísfélagsins sagði í samtali við Eyjafréttir í gær að fulltrúar Ísfélagsins ætli að nota þetta tækifæri og skoða skipið auk þess sem að tveir úr væntanlegri áhöfn fara með skipinu næsta túr.
Skipið sem er í eigu skoska fyrirtækisins Lunar Fishing Company Limited var smíðað árið 2017 í Danmörku og er 78 metra langt og 15,5 metra breitt. Óskar Pétur Friðriksson fylgdist með komu skipsins til Eyja í morgun í gegnum linsuna.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst