Á morgun, fimmtudag kl. 20.00, heldur félagið Eyjagöng ehf. opinn kynningarfund í Höllinni. Þar verða kynnt næstu skref í verkefninu og staða jarðrannsókna sem nú eru í undirbúningi. Haraldur Pálsson, framkvæmdastjóri Eyjaganga ehf., segir – í samtali við Eyjafréttir – áherslu lagða á gagnsæi, traust og virkt samtal við Eyjamenn.
Spurður hvar verkefnið standi í dag segir Haraldur að undanfarið hafi verið unnið markvisst að undirbúningi. „Við höfum lokið verðkönnun í jarðfræðiráðgjöf, þar sem eftirlit við borun mun fara fram. Á fundinum í Höllinni verður sá samningur undirritaður og ráðgjafi okkar kynntur,“ segir hann.
Fjármögnun verkefnisins hafi gengið vel frá upphafi. „Við fengum góðan meðbyr í byrjun og það varð til þess að við fórum af stað með stofnun félagsins. Undanfarnar vikur höfum við verið í samtölum við fleiri aðila um að stækka hluthafahópinn og höfum eingöngu fengið jákvæð viðbrögð.“
Jarðrannsóknirnar eru lykilþáttur í næsta fasa verkefnisins og eiga að veita skýrar upplýsingar um forsendur jarðganga.
„Rannsóknirnar eiga að meta styrkleika bergsins, skoða lektina og samlímingu í því. Þær eiga að skera úr um hversu stöðug berglögin eru fyrir jarðgöng. Það fer talsvert eftir eðli bergsins hversu afgerandi niðurstöðurnar verða, en með þessum rannsóknum erum við komin mörgum skrefum framar í að kostnaðarmeta framkvæmdina.“
Aðspurður um sterkustu rökin fyrir Eyjagöngum segir Haraldur samgöngumálin skipta sköpum fyrir framtíð samfélagsins.
„Eyjamenn búa við ótryggustu samgöngur af öllum landsmönnum og eru því mjög ójafnt settir gagnvart öðrum. Stöðugar samgöngur eru grunnforsenda fyrir atvinnulíf og fjárfestingar og því er þetta mikilvægt byggðamál. Íbúafjöldi í Vestmannaeyjum hefur staðið í stað frá aldamótum á meðan mikil fjölgun hefur orðið annars staðar á Suðurlandi.“
Hann segir opna kynningarfundinn á morgun mikilvægan þátt í því að byggja upp traust.
„Ég vona að gestir fundarins gangi út með þá tilfinningu að þetta sé vel unnið og unnið af virðingu fyrir samfélaginu. Traust skiptir hér mestu máli. Ég vil líka að fólk finni að rödd Eyjamanna skipti máli. Þetta er kynning til að opna umræðuna, sýna hvar við stöndum og fara yfir þau skref sem eru fram undan.“
Í lokin er Haraldur spurður hvað hann vilji segja við þá sem eru efins og óttist að áhættan sé meiri en ávinningurinn.
„Ég skil þá afstöðu mjög vel. Þegar um svona stórt inngrip er að ræða er eðlilegt og nauðsynlegt að spyrja hvort áhættan sé meiri en ávinningurinn. Slíkar spurningar eru ekki neikvæðar – þær hjálpa okkur að gera þetta betur eða alls ekki.“
Hann segir ekkert verða keyrt áfram nema forsendur séu skýrar. „Ekkert verður gert nema áhættan sé skilin, metin og tekin föstum tökum. Ef niðurstaðan verður sú að ávinningurinn réttlæti ekki áhættuna, þá er það líka gild niðurstaða. Markmiðið er ekki göngin sjálf, heldur að taka upplýsta ákvörðun sem er samfélaginu í Vestmannaeyjum fyrir bestu til lengri tíma.“
Fundurinn er eins og áður segir á morgun, fimmtudag klukkan 20.00 í Höllinni og eru Eyjamenn hvattir til að mæta.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.