Krabbavörn Vestmannaeyja fékk í kvöld afhentan rausnarlegan styrk sem safnaðist á aðventunni að frumkvæði Trölla, í samstarfi við bæjarbúa, fyrirtæki og hópa í Vestmannaeyjum. Afhendingin fór fram á heimavelli Trölla í Vöruhúsinu og nam styrkurinn alls 1.180.000 krónum.
Í upphafi aðventu hafði Ármann Halldór Jensson samband við Krabbavörn Vestmannaeyja og lýsti yfir áhuga á að styrkja félagið, helst um eina milljón króna. Í kjölfarið klæddi hann sig í búning Trölla og heimsótti fjölmarga aðila í bænum, en söfnunin óx jafnt og þétt eftir því sem á leið aðventuna. Á Þorláksmessu hitti Trölli svo fulltrúa Krabbavarnar og afhenti styrkinn.
Formaður Krabbavarnar Vestmannaeyja, Þóranna M. Sigurbergsdóttir, segir í samtali við Eyjafréttir félagið afar þakklátt fyrir stuðninginn. „Það er yndislegt að finna hlýhug og hvatningu þegar jólahátíðin nálgast og örfá orð ná ekki að lýsa þakklæti okkar,“ segir Þóranna, sem jafnframt sendir Ármanni og öllum þeim sem lögðu söfnuninni lið innilegar þakkir og óskar bæjarbúum gleðilegra jóla.
Fleiri myndir frá afhendingunni má sjá hér að neðan.





















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst