Atvinnuvegaráðuneytið og Vestmannaeyjabær hafa undirritað samning um verkefnastyrk til gerðar göngustígs (gönguleiðar) í hlíðum Eldfells í tengslum við listaverk til minnis um eldgosið á Heimaey 1973. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Listaverkið er hannað af Ólafi Elíassyni og mun gönguleiðin liggja frá verkinu og hringinn í kringum gíginn í Eldfelli. Saman munu listaverkið og gönguleiðin mynda eina sjónræna og listræna heild þar sem eldgígurinn sjálfur er í miðpunkti.
Samkvæmt samningnum verður sérstök áhersla lögð á öryggisþátt þess að hafa góðan og vel hannaðan göngustíg á því svæði þar sem listaverkið verður reist og jafnframt að gönguleiðin falli vel inn í landslagið og stuðli að verndun viðkvæmrar náttúru á svæðinu.
Verkefnið fellur vel að áherslum í ferðamálastefnu stjórnvalda, m.a. um öryggi ferðamanna, sjálfbærni og dreifingu ferðamanna um landið og yfir árið. Stuðningur ráðuneytisins við verkefnið er að fjárhæð 60 m.kr. og er gildistími samningsins til ársloka 2025, segir í tilkynningunni.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst