Stóra upplestrarkeppnin fyrir 7. bekk á sér langa og farsæla sögu. Raddir, samtök um vandaðan upplestur og framsögn hafa staðið að keppninni frá árinu 1996 en tilkynntu að veturinn 2020-2021 yrði síðasta skólaárið sem samtökin stæðu fyrir keppninni. Þau hafa hvatt sveitarfélög til að halda keppninni áfram og veitt góðan stuðning til þess. Ekki er þó leyfilegt að nota heitið „Stóra upplestrarkeppnin“ og þurfti keppnin að fá nýtt nafn. Grunnskóli Vestmannaeyja hefur tekið þátt í keppninni með grunnskólum Rangárvalla- og V-Skaftafellssýslu og hefur keppnin á því svæði fengið nafnið Röddin-upplestrarkeppni. Efnt var til nafnakeppni meðal nemenda í 7. bekk og kosið um þær tillögur sem bárust. Það var Inda Marý Kristjánsdóttir sem átti hugmyndina að nýja nafninu.
Ræktunarhluti keppninnar hefst á degi íslenskrar tungu þann 16. nóvember og er mikilvægast hluti hennar. Höfuðáhersla er á bekkjarstarfið og að allir nemendur njóti góðs af. Í lok ræktunartímabils eru haldnar bekkjarkeppnir og valdir fulltrúar úr bekkjunum til að keppa í skólakeppninni.
Skólakeppni Raddarinnar-upplestrarkeppni var síðan haldin þriðjudaginn 29. mars sl. 11 nemendur kepptu um að vera fulltrúar GRV á lokahátíð Raddarinnar-upplestrarkeppni sem verður haldin á Kirkjubæjarklaustri 28. apríl nk.
Keppendur lásu svipmyndir úr sögunni Leyndardómur ljónsins eftir Brynhildi Þórarinsdóttur og ljóð eftir Örn Arnarson. Þeir stóðu sig allir með stakri prýði og var hlutverk dómnefndar að vanda erfitt en hana skipuðu Helga Sigrún Þórsdóttir, Hjalti Enok Pálsson og Sigurhanna Friðþórsdóttir.
Í 1.-3. sæti voru Edda Björk Guðnadóttir, Maríanna Jónasdóttir og Petra Metta Kristjánsdóttir sem verða þá fulltrúar skólans í á lokahátíðinni. Oddur Bjarni Bergvinsson var í 4. sæti og er varamaður.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst