Auðbjörg Sigurþórsdóttir og Ragnheiður Hanna Sigurkarlsdóttir hafa unnið saman í fiski frá árinu 1980 og eru meðal þeirra sem nú kveðja Leo Seafood. Á vefsíðu Vinnslustöðvarinnar hefur verið birt ítarlegt viðtal við þær þar sem þær líta um öxl, rifja upp vertíðir og vináttu og segja frá tilfinningunum þegar kveðjustundin rennur upp. Viðtalið má lesa hér að neðan einnig.
Þær sitja hlið við hlið, eins og svo oft áður í gegnum árin, þegar þær eru spurðar hvernig þessi saga hafi eiginlega byrjað – þessi langa samfylgd í fiski og lífi.
Auðbjörg Sigurþórsdóttir sem fædd er á Eskifirði, segir að hún hafi byrjað í gamla Ísfélaginu árið 1980. Við hlið hennar er Ragnheiður Hanna Sigurkarlsdóttir frá Hellu, sem hafði þá þegar verið komin nokkur ár á undan til Eyja.
„Ég byrjaði ’77 í Þorlákshöfn yfir sumarið og kom svo hingað ’78,“ rifjar Ragnheiður upp. Þær brosa hvor til annarrar þegar talað er um árin – sem nálgast hálfa öld í fiski. „Já, þetta eru eiginlega orðin 48 ár hjá mér,“ segir Ragnheiður. „En ég kem svo ’80,“ bætir Auðbjörg við.
Það var þá sem leiðir þeirra lágu saman í vinnu og hafa gert það nánast óslitið síðan. Þær muna ekki fyrsta daginn sem þær unnu saman, svo langt er um liðið. „Við byrjuðum að vinna saman í Ísfélaginu og erum eiginlega bara búnar að vera saman síðan,“ segir Auðbjörg. „Við stefnum meira að segja á að labba út saman á síðasta degi.“
Þegar þær eru spurðar hvað hafi helst breyst í fiskvinnslu frá upphafsárunum, staldra þær aðeins við. „Jesús… það er svo margt,“ segir Ragnheiður og hristir hausinn.
Hún lýsir vinnuumhverfinu á sínum fyrstu árum: allt var þyngra, meira handvirkt og fólk undir miklu meira líkamlegu álagi. „Áður fyrr var miklu meiri burður. Tuttugu kílóa bakkar, staflað í tíu hæða turn og keyrt fram og til baka,“ segir hún.
„Það var sett í 20 kílóa bakka inn á vélunum,“ bætir Auðbjörg við, „svo var einn sem bar bakka á borðin til okkar.“ Þær lýsa mikilli erfiðisvinnu: skorið, vigtað, pakkað og sett í pönnur – allt unnið af konunum sjálfum, með sér fólki á gólfi og miklu meiri mannskap en í dag. Ruslið var vigtað sérstaklega og þá ríkti einstaklingsbónus sem ýtti enn undir keppni.
„Hörðustu bónuskonurnar tóku ruslið sitt úr fötunum í lok dags og undu vatnið úr því til að fá betri nýtingu,“ segir Auðbjörg hlæjandi. „Ég var mikið í því að bera bakkana á borð,“ bætir Ragnheiður við.
Í gegnum tíðina hafa þær verið færðar til á milli deilda og húsa, eins og tíðkast í fyrirtækjum sem bregðast við þörfum hverju sinni. „Við vorum líka saman á verðbúðunum,“ segir Auðbjörg og vísar til þess að þær hafi verið upp í gamla Ísfélagi þar sem er í dag komnar fínar íbúðir. „Gamla verbúðin, sem eitt sinn var full af fiskvinnslufólki og fjöri, er nú orðið að sambýli og íbúðum. Enn eitt dæmið um það hvernig tíminn og atvinnulífið breytir landslaginu.“
Þegar minnst er á að þær eigi afmæli á sama degi og sama ári, breytist svipurinn í gamansemi. Báðar fæddar 29. nóvember 1960 – og það hefur alltaf verið uppspretta létts húmors í kringum þær. „Ég segi nú oft að ég sé eldri,“ segir Auðbjörg og hlær.
„Hún heldur því fram,“ segir Ragnheiður. „En þetta munar bara einhverjum klukkutímum. Ég veit að ég fæddist um kvöldmatarleytið, en við erum báðar 29. nóvember, það stendur.“
Þær muna ekki nákvæmlega hvenær þær uppgötvuðu að dagurinn væri sá sami, en segja að afmælin hafi alla tíð verið ákveðin sameiginlegur punktur – rétt eins og saumaklúbburinn sem þær hafa verið í saman í áratugi.
„Stundum höldum við aðeins upp á daginn saman, stundum bara heima með fjölskyldunni,“ segir Auðbjörg og Ragnheiður bætir við: „Ég er ekki mikið fyrir stórar afmælisveislur. Bara smá kaffi heima með fjölskyldunni, það dugir mér.“
Spurðar um stemninguna á gamla Ísfélagstímanum segja þær frá litríkum persónum og sögum sem sumar hverjar eru ekki alveg prenthæfar. „Það var bara rosalega gaman,“ segir Auðbjörg. „Allir töluðu saman, allir voru á sama stað.“
Þegar þær koma að Leo Seafood breytist frásögnin lítillega, en hlýjan er sú sama. Þær segja frá fyrstu árunum hjá Leo – sem reyndar hét þá Godthaab í Nöf – þegar hópurinn var lítill og eigendurnir sjálfir voru með í vinnslunni. „Við byrjuðum hjá Godthaab 1. febrúar 2002,“ segir Ragnheiður. „Þá vorum við 24 í húsinu með eigendunum.“
„Það var mikill samhugur og við vorum oft að gera eitthvað skemmtilegt,“ bætir Auðbjörg við. „Til dæmis árshátíðarmyndböndin – þau voru alltaf fyndin og skemmtileg.“ Ragnheiður kinkar kolli: „Já, árshátíðarmyndböndin hér niðri – þar voru mörg atvik sem maður gleymir ekki. Það var mikið hlegið á meðan upptökunum stóð.“
Þegar talið berst að lokun Leo Seafood breytist tónninn. Spurt er hvernig það sé að upplifa að fyrirtækið sé að loka eftir alla þessa sögu og tengingu. „Mér finnst það agalegt,“ segir Auðbjörg hreinskilin. „Ég veit eiginlega ekki hvort ég á mörg orð um það.“
Ragnheiður segir að fyrirtækið sé orðið gamalt og að kannski hafi grundvöllurinn ekki verið lengur til staðar – en samt sé erfitt að sjá þetta fara. Spurðar um hvað hafi helst einkennt Leo sem vinnustað, líta þær aftur til fyrsta áratugsins. „Fyrstu 5–10 árin var einhvern veginn miklu meiri samheldni,“ segir Auðbjörg. „Við vorum alltaf að gera eitthvað skemmtilegt saman. Það voru alltaf partí, alltaf gaman. Svo stækkar fyrirtækið, hópar myndast og það koma fleiri útlendingar sem halda meira saman. En samt hefur alltaf verið gott að vera hér.“
„Það hefur alltaf verið gaman á árshátíðunum,“ bætir Ragnheiður við. „Og alltaf gaman að koma í vinnuna, þrátt fyrir allt.“
Þegar þær eru beðnar um að lýsa hvor annarri í starfi, hugsa þær stuttlega og svara svo af einlægni. Áður en spurningin er kláruð um Ragnheiði, segir Auðbjörg hiklaust: „Hún er mjög nákvæm og smámunasöm – í góðri merkingu. Hún er vandvirk, jákvæð og mætir vel.“
Ragnheiður brosir og fær svo sína spurningu um Auðbjörgu: „Hún er bara dugleg. Gaman að vinna með henni, hún er áreiðanleg og vandvirk. Við erum báðar þannig að við stöndum fyrir okkar… og við erum klárar.“ Hún bætir hlæjandi við: „Það verður mikil eftirsjá að okkur, já.“
Spurðar um framtíðina, nú þegar lokunin blasir við, segja þær að tíminn muni skera úr um framhaldið.
„Við erum bara orðnar það gamlar að það er spurning hvort við fáum einhverja vinnu annars staðar,“ segir Ragnheiður. „Ætli maður fari ekki bara að sinna barnabörnunum meira, skutla og þetta daglega. Það gæti bara verið gæði út af fyrir sig,“ segir Auðbjörg og bætir við að ef önnur þeirra taki sig upp og fari að vinna aftur sé líklegt að hin fylgi. „Svona hefur þetta alltaf verið,“ segir hún og hlær.
Ragnheiður rifjar upp að hún hafi lengi unnið nánast alla daga, verið lengi í 80% starfi en í raun mætt meira en svo. „Á tímabili vann ég svo til alla daga, missti varla tvo daga úr á þremur árum. Maður þarf eiginlega að ákveða hvað maður ætlar að gera núna.“
Þær rifja upp erfiðar, en góðar vertíðir. Ein vertíð er þeim sérstaklega minnistæð. „Ég man sérstaklega eftir einni vertíð þegar við unnum 13 laugardaga í röð, mættum klukkan sex á morgnana,“ segir Ragnheiður.
„Og svo páskarnir,“ bætir Auðbjörg við. „Þá unnum við skírdag, laugardag og yfir páskana. Það var meiri vinna og álag. Ég man að það tók á.“ Þær segja þó að það hafi verið gagnkvæmt álag – bæði á starfsfólk og fyrirtæki – og nefna sérstaklega sveigjanleika í fríum sem stóran kost.
„Ég hef aldrei fengið nei þegar ég hef beðið um frí,“ segir Auðbjörg. „Ég hef komið hérna með tveggja daga fyrirvara og sótt um hálfs mánaðar frí og fengið það.“
„Það er ekki sjálfsagt alls staðar,“ segir Ragnheiður. „Ef maður fer eitthvað annað, á leikskóla eða sem gangavörður eða eitthvað, þá er ekkert víst að maður komist í frí þegar maður vill.“
Þegar þær eru spurðar hvaða ráð þær myndu gefa ungri manneskju sem væri að byrja í fiski í dag, hlær Auðbjörg og segir að það sé nú lítið af ungu fólki í þessari grein.
„En ef einhver ákveður að fara í þetta,“ segir Ragnheiður, „þá myndi ég segja: farðu í Fiskvinnsluskólann. Lærðu fagið almennilega. Það er margt hægt að gera með þann grunn.“
Í lokin vilja þær að senda skilaboð til samstarfsfólks og eigenda. „Ég vil bara þakka öllum sem ég hef unnið með og eigendunum líka, fyrir góð kynni og góð ár,“ segir Ragnheiður.
„Sama hér,“ segir Auðbjörg. „Þetta hefur allt verið mjög gott fyrir mig, bæði sem starf og sem félagslíf. Það hefur aldrei verið neitt hræðilegt við að koma hingað, frekar þvert á móti. Ég hef alltaf fengið já þegar ég hef þurft eitthvað.“
Ragnheiður tekur undir: „Það er mikill kostur sem maður sér ekki alls staðar.“ Auðbjörg horfir yfir og segir að lokum: „Og við höfum lagt okkar fram á móti – mætt snemma, unnið helgar og vertíðir og allt það. Þetta hefur verið gagnkvæmt.“
Þær brosa hvor til annarrar. Konur sem byrjuðu í fiski á unglingsaldri, urðu vinnufélagar, vinir og lífsförunautar í starfi. Nú þegar kaflanum hjá Leo Seafood lýkur, er annað ljóst: samfylgd þeirra er ekkert að fara að ljúka. Þær stefna enn á að „gera eitthvað meira skemmtilegt saman“.




















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Ekki liggja fyrir nýjar mælingar
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.