Drög að frumvarpi um breytingar á lögum um veiðigjald sem nú er í samráðsgátt voru tekin til umfjöllunar á fundi bæjarráðs Vestmannaeyja á miðvikudaginn. Þar voru drög að umsögn Vestmannaeyjabæjar um málið einnig rædd. Þá ræddi ráðið bókun stjórnar Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga frá fundi 28. mars. sl um frumvarpsdrögin.
Í umsögn bæjarráðs kemur fram að ráðið telji það óásættanlegt að ráðherra og ríkisstjórn leggi fram drög að frumvarpi um hækkun veiðigjalda án þess að þeim fylgi ítarlegar upplýsingar um þau áhrif sem slík breyting hefur á sveitarfélögin og samfélagið í Vestmannaeyjum þar sem sjávarútvegurinn er undirstöðuatvinnugrein.
Bæjarráð tekur undir bókun Samtaka sjávarútvegssveitarfélaga og felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að senda umsögn bæjarráðs í samráðsgátt.
Fram kom í Morgunblaðinu í vikunni að árið 2023 hafi í þremur sveitarfélögum verið greidd veiðigjöld sem námu yfir þrjú hundruð þúsund krónum á hvern íbúa. Voru það Vestmannaeyjar með 392.753 krónur, Snæfellsbær með 343 þúsund krónur og svo Fjarðabyggð með 335.325 krónur.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst