Viðtalið hér að neðan birtist í nýjasta tölublaði Eyjafrétta og var framkvæmt 19. febrúar.
Haukar verða andstæðingar ÍBV í undanúrslitum Powerade-bikars karla en dregið var í liðinni viku. Undanúrslitaleikirnir fara fram í Laugardalshöll miðvikudaginn 6. mars. Leikurinn hefst klukkan 18:00. Seinna þennan sama dag mætast Stjarnan og Valur klukkan 20:15.
Þó svo að þjálfarar séu oft feimnir að gefa upp hug sinn með óska andstæðinga segist Magnús Stefánsson þjálfari ÍBV vera ánægður með andstæðingana. „Strákana kitlar í puttana að mæta Haukum aftur eftir vægast sagt slakan leik síðast þegar liðin mættust. Ég held að menn vilji helst mæta Haukum strax á morgun.“ ÍBV tapaði með tíu marka mun gegn Haukum á Ásvöllum í byrjun febrúar. „Við höfum verið flottir í undanförnum leikjum og mér finnst vera að magnast upp einhver stemmning sem maður kannast við. Ég held að þetta gæti orðið undanfari þess að það gæti eitthvað skemmtilegt verið í vændum.“
Aldrei tapað í Höllinni
Karlalið ÍBV hefur í þrígang fram að þessu tryggt sér sæti í final four bikarúrslitahelginni 2015, 2018 og 2020 og alltaf staðið uppi sem sigurvegari keppninnar. Jafnvel þó farið sé aftur til ársins 1991 þegar ÍBV tryggði sér sinn fyrsta titil í handbolta hefur liðið ekki tapað bikarleik í Laugardalshöll. Magnús segir þessa umræðu hafa komið upp og strákana meðvitaða um þessa staðreynd. „Þetta er tvíeggja sverð annars vegar að menn ætli að treysta á það að það breytist ekki og gerist að sjálfu sér. Ég hef þó ekki áhyggjur af því þetta eru fagmenn sem vita hvernig þetta virkar. Þetta gæti líka gefið mönnum byr í seglin og trú á verkefnið. Innst inni eru menn ekkert allt of mikið að spá í þessu. Það er mikill fókus á verkefnið þetta er skemmtilegasta helgi ársins fyrir handboltamenn.“
Erum á réttri braut
Það vakti athygli blaðamanns í leik KA og ÍBV sem fram fór um síðustu helgi að ungir reynslu litlir leikmenn voru áberandi í leik liðsins. Drengirnir sem um ræðir eru Jason Stefánsson, Elís Þór Aðalsteinsson og Andri Erlingsson. „Það eru að koma upp flottir hópar núna hjá félaginu og við erum bara að uppskera af góðu starfi. Það sem er svo skemmtilegt við þetta að við erum að fá inn mjög sterka unga leikmenn sem eiga ekki einhverja sigurgöngu að baki í yngri flokkum. Við fórum af stað í ákveðna vegferð fyrir nokkrum árum, það virðist bara vera að skila sér. Þessir strákar og fleiri sem eru á leiðinni eru bara mikil viðurkenning á það hvernig félagið vinnur með unga leikmenn, það snýst ekki allt endilega um að vinna heldur að reyna að móta einstaklinginn og leikmanninn sem vonandi passar svo inn í uppstillinguna okkar.“
Drengirnir sem um ræðir eru 16 og 17 ára og hafa verið hluti af sterku 3. flokks liði ÍBV í vetur. „Það eru þjálfarar annara liða í þessum flokki að klóra sér í hausnum hvernig stendur á því að ÍBV er með einn sterkasta 3. flokk á landinu í dag, þegar þessir sömu strákar hafa aldrei verið að keppa til verðlauna á síðustu árum. Þetta eru strákar sem við vildum koma inn í hlutverk í meistaraflokki í vetur og þeir eru að sýna mér að þeir eru tilbúnari en við reiknuðum með. Þessi vinna sem við erum að leggja í yngri flokka starfið er að skila sér og ef maður horfir betur á þessa flokka sem koma næst þá eru bara spennandi tímar fram undan.“
Afar óheppilegt
Víða hefur verið rætt um þá staðreynd að árshátíð Vestmannaeyjabæjar verður haldin 9. mars sama dag og úrslitaleikir í bikarnum fara fram. Frá því 2018 hefur aðeins einu sinni gerst að ÍBV hafi ekki átt meistaraflokkslið í úrslitahelginni og hefur því þessi ráðstöfun vakið furðu víða. Magnús segir aðspurður hafa orðið var við þessa umræðu og furðar sig á þessu. „Tímasetningin á árshátíðinni er afar óheppileg. Félagið okkar er nú þegar með tvö lið í bikarúrslitum þessa helgi og það er ekkert annað á dagskránni hjá meistaraflokknum en að tryggja sér sæti þar líka. Þessu verður líklega ekki breytt úr þessu, þetta er stór samkoma og búið að panta aðföng, skemmtikrafta og annað. Mér finnst líka mikilvægt að við eigum tvö lið í yngri flokkum sem verða á staðnum. Þetta er stórt fyrir þessa krakka að komast á þetta svið. Eyjamenn hafa verið duglegir að mæta á þessa leiki og það er mikilvægt að aðstandendur geti mætt og stutt við bakið á þeim með góðu móti. Ég er þó ekki í vafa um það að Eyjamenn fjölmenni á þessa leiki okkar. Stuðningur á pöllunum hefur verið stór þáttur í árangri ÍBV á síðustu árum þetta vita Eyjamenn og klára þetta með okkur,“ sagði Magnús kátur að lokum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst