Útgáfutónleikar disksins Heima fara fram í Salnum Kópavogi á laugardaginn klukkan 16:00. Þar flytja Eyjakonurnar Silja Elsabet Brynjarsdóttir og Helga Bryndís Magnúsdóttir píanóleikari sönglög ástsælasta tónskálds Eyjamanna Oddgeirs Kristjánssonar.
Silja Elsabet sagði í samtali við Eyjafréttir vera mjög spennt fyrir tónleikunum. „Ég kom síðast fram fyrir áhorfendur á goslokahátíðinni í sumar, ég er búin að koma fram á nokkrum sýningum úti í London í haust en þar voru engir áhorfendur. Það var mjög skrítið og manni leið ekki eins og þetta væri sýningin, frekar bara æfing. Við listamenn fáum orkuna okkar frá áhorfendunum í salnum, við nærumst á þeirra hrifningu og ánægju. Þess vegna er ég mjög spennt að fá að syngja aftur fyrir “alvöru fólk”.
Hvað getur þú sagt mér um þennan disk? „Þessi diskur inniheldur 24 lög eftir Oddgeir Kristjánsson í hans útsetningum. Oddgeir var búin að setja saman nótnahefti með 26 lögum rétt áður en hann lést, það hefti var gefið út 1968, tveimur árum eftir andlát hans. Við Helga Bryndís erum miklir Oddgeirs aðdáendur og ákváðum við að þessi lög þurfa líka að fá að njóta sín eins og Oddgeir útsetti þau. Við Helga erum búnar að stúdera lögin mikið og setjum við allt okkar hjarta í þessar upptökur. Það finnst mér mestu máli skipta þegar verið er að flytja þessar dásamlegu perlur. Ef það er engin tilfinning hjá flytjendunum ná þau ekki að njóta sín.“
Silja segir söluna hafa gengið vel. „Við vonumst til að fylla salinn! Við megum bara selja 100 miða svo hægt sé að fylgja öllum sóttvörnum. Það eru nokkrir miðar eftir og ég vona innilega að við seljum alla miðana. Ég hlakka mikið til að sjá öll vinalegu andlitin sem hafa fylgt mér í gegnum árin og komið á alla tónleikana mína, mér þykir mjög vænt um ykkar stuðning. Takk fyrir mig!“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst