„Mér heyrist á mönnum í kringum mig að það sé óhjákvæmilegt að draga saman seglin,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum.
Hann tekur fram að hann þekki ekki nákvæmlega til rekstrar hjá öðrum, en nánast lokun í sölu á ferskum fiski, samkomubann miðað við 20 manns og 10 manns í Eyjum, fleiri aðgerðir, sóttkví og veikindi muni hafa áhrif. Sigurgeir segir að staðan sé metin daglega, en hún sé óneitanlega að þyngjast.
Hann segir að skoðað verði hversu stíft verði sótt því ekki sé skynsamlegt að vera með mikið af óunnum fiski við þessar aðstæður. Staðan sé óneitanlega skrýtin í Vestmannaeyjum þessa dagana, margir veikir og margir í sóttkví. Núna ætti allt að vera á fullri ferð, hábjargræðistíminn og vetrarvertíð í hámarki. Til þessa hafi fyrirtækið náð að halda fullum dampi.
Hjá fyrirtækinu sé mikil áhersla á söltun, enda hafi þurrkaður saltfiskur mikið geymsluþol. Mikið af saltfiskinum fari til Portúgal, þar sem Vinnslustöðin keypti fyrirtæki nýverið. Kína virðist vera að taka við sér og þá hafi um helgina borist fyrirspurn um hvort fyrirtækið gæti afhent ferskan fisk í gámum til Evrópu. Sigurgeir segir að það mál sé í skoðun, eitt sé að geta afhent fisk, annað sé að þora í slík viðskipti því ástandið breytist hratt í kaupalöndunum.
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst