
Athuganir standa nú yfir á því hvort Vestmannaeyjahöfn geti orðið ein af lykilhöfnum landsins fyrir uppbyggingu fóðurframleiðslu fyrir fiskeldi. Málið var tekið fyrir á síðasta fundi framkvæmda- og hafnarráðs Vestmannaeyja, þar sem farið var yfir stöðu vinnu sem tengist mögulegri uppbyggingu stórskipakants í höfninni.
Hafnarstjóri og framkvæmdastjóri sviðsins hafa verið í samskiptum við Mar Advisors, sem vinna að úttekt á höfnum víðsvegar um landið fyrir aðila sem skoða uppbyggingu fóðurverksmiðju á Íslandi. Í því samhengi hefur verið óskað eftir upplýsingum um hvernig uppbygging stórskipakants í Vestmannaeyjahöfn gæti litið út, hver mögulegur tímarammi framkvæmda væri og hvernig hafnargjöldum væri háttað. Öll umbeðin gögn hafa verið afhent.
Í niðurstöðu ráðsins kemur fram að tekið sé jákvætt í að þessi vinna sé hafin og lögð er áhersla á að mikilvægt sé að sem fyrst liggi fyrir hvort Vestmannaeyjahöfn teljist fýsilegur kostur fyrir slíka uppbyggingu.
Bent er á að uppbygging hjá Laxey, ásamt viljayfirlýsingu um að Vestmannaeyjar geti orðið þjónustuhöfn fyrir hugsanlegt úthafseldi, styrki rök fyrir því að fóðurframleiðsla verði staðsett í Eyjum. Samkvæmt áætlunum má gera ráð fyrir að innan fárra ára verði fóðurþörf fyrir um 100 þúsund tonn af laxi miðað við þau eldisáform sem nú liggja fyrir.
Niðurstaða úttektarinnar mun ráða miklu um næstu skref í málinu og hvort Vestmannaeyjar verði valdar sem miðstöð fyrir þessa mikilvægu þjónustu við vaxandi fiskeldi á Íslandi.