Strandveiðar hafnar
2. maí, 2024
IMG_0272.jpg
Landað í Eyjum. Eyjar.net/TMS

Mikið hefur verið um að vera í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar í morgun, á fyrsta degi strandveiðanna. Klukkan tíu voru á níunda hundrað skip og bátar í fjareftirliti hjá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar.

Á vef Landhelgisgæslunnar er það áréttað að allir bátar sem fara til strandveiða þurfa að tilkynna Landhelgisgæslunni brottför til hafnar á VHF rás 9 eða með smáforritinu VSS. Þá er einnig skilyrði að haffæri séu í gildi en óheimilt er að hefja sjóferð nema að gilt haffærisskírteini sé um borð og áhöfn sé lögskráð.

Þá minnir Landhelgisgæslan einnig á að á sjó er skylduhlustvarsla á VHF rás 16. Rásin er neyðar- og uppkallsrás og því mikilvægt að sjófarendur viðhafi hlustun á rásina allan tímann sem skip er á sjó. Þannig geta önnur skip og bátar, sem og stjórnstöð LHG náð sambandi um borð sé þess þörf. Slíkt er sérlega mikilvægt ef slys verður því næstu skip eru mögulega fyrst til björgunar. Sé talstöð stillt á vinnurás skal nota svokallaða tvöfalda hlustun eða „dual watch“ til að talstöðin fylgist einnig með rás 16.

Minna á reglur um veiðidaga og ávinning til byggðakvóta á strandveiðum

Á vef Fiskistofu er minnt á reglur um veiðidaga og ávinning til byggðakvóta á strandveiðum.

Á strandveiðum er heimilt að stunda strandveiðar í 12 veiðidaga innan hvers mánaðar í maí, júní, júlí og ágúst, á mánudögum, þriðjudögum, miðvikudögum og fimmtudögum.

Óheimilt er að stunda strandveiðar eftirfarandi daga: 1. maí, 20. maí, 17. júní og 5. ágúst.

Ein veiðiferð er heimil á dag, sem stendur ekki lengur en 14 klukkustundir. Miðað er við þann tíma er skip lætur úr höfn til veiða til þess tíma er það kemur til hafnar aftur til löndunar.

Til þess að veiðiferð teljist vera innan dags þarf skip að leggja úr höfn til veiða á sama degi og það kemur til hafnar aftur til löndunar, þ.e. innan sama sólarhrings.

Mælst er til þess að tilkynnt sé til Landhelgisgæslunnar og Fiskistofu ef óviðráðanlega ástæður valda því að skip nái ekki til hafnar innan 14 klukkustunda frá upphafi veiðiferðar.

Einungis er heimilt að koma með 650 þorskígildisstuðla að landi eftir hverja veiðiferð. Lagt er á sérstakt gjald vegna afla sem landað er umfram 650 þorskígildisstuðla. Fiskistofa vekur athygli á því að afli sem skráist sem umframafli á strandveiðum reiknast ekki til byggðakvóta. Hvorki sem mótframlag né veiðireynsla og er það breytt framkvæmd frá fyrri árum.

Skoða blaðið á netinu
Forsida 12 Tbl 2024
12. tbl. 2024
Mest lesið
viðburðir
Fylgstu með

Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst