Bæjarbúar hafa nú þurft að þola lokun innisundlaugarinnar frá því 20. október síðastliðinn eða í 12 vikur og stefnir í a.m.k. 3 vikur af lokun í viðbót en aldrei í sögu sundlaugarinnar hefur lokun hennar varað jafn lengi.
Þessi staða er óásættanleg enda sundlaugin mikilvægur staður til heilsuræktar, sér í lagi á veturnar þegar allra veðra er von og ekki síður mikilvægur þáttur skólastarfs.
Það er afar mikilvægt að sveitarfélagið útvegi íbúum góða aðstöðu til heilsuræktar en sundlaugarmenningin er rótgróin regluleg heilsurækt margra íbúa og ekki síst eldri borgara. Auk allra einstaklinga sem nýta sundlaugina til heilsuræktar eru sundleikfimihópar með starfsemi fyrir fjölbreyttan hóp fólks. Á þessu þriggja mánaða lokunartímabili sem verður eflaust enn lengra hafa tækifæri viðkvæms hóps til heilsuræktar verið takmörkuð verulega sem er mjög miður og getur haft neikvæð áhrif á líkamlega og andlega heilsu.
Sársaukaminna hefði verið að hafa innilaugina lokaða yfir sumartímann þegar skipulögð starfsemi hennar er talsvert minni en samkvæmt svörum frá bæjarstjóra réðist tímasetning af því hvenær fagaðilar fengust í verkið og íhlutir væru komnir.
Staða sundkennslu vegna lokunarinnar hefur verið rædd innan fræðsluráðs Vestmannaeyja að frumkvæði undirritaðrar en sundkennsla er hluti af lögbundinni kennsluskyldu samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla og ein hagnýtasta og lífsbjargandi færni sem grunnskólinn kennir. Sundkennsla hefur ekki getað farið fram með hefðbundnum hætti á þessum langa tíma né æfingar sundfélagsins sem sinnir mikilvægu íþróttastarfi, en sundiðkendur hafa ekki getað stundað íþrótt sína svo mánuðum skiptir.
Í ljósi þess ákvað ég að sjaldan ef nokkurn tímann hefur verið betra tilefni til að leggja formlega fram tillögu þess efnis að Vestmannaeyjabær framkvæmi fýsileikakönnun á byggingu sjúkralaugar við sundlaug Vestmannaeyja sem mun einmitt fagna 50 ára afmæli á þessu ári.
Ný sjúkralaug myndi bæta aðstöðu bæjarbúa fyrir sundiðkun verulega þar sem hægt væri að sinna sundleikfimi og ungbarnasundi í upphitaðri laug alla daga vikunnar án þess að trufla aðgengi almennra bæjarbúa að sundlauginni, hægt væri að leigja hana út til endurhæfingaraðila en endurhæfing í vatni hefur reynst mjög vel m.a. í göngu- og styrktarþjálfun einstaklinga með taugasjúkdóma á borð við M.S. og Parkinson, í kjölfar heilablóðfalla, hjá börnum með of litla eða of mikla vöðvaspennu og hjá afreksíþróttafólki í kjölfar alvarlegra meiðsla eða aðgerða svo eitthvað sé týnt til.
Ný sjúkralaug myndi auka aðgengi almennings að sundlauginni án þess að auka opnunartíma og myndi bjóða upp á fjölbreyttari og betri þjónustu fyrir alla aldurshópa bæjarins en ekki síst hina allra yngstu, allra elstu og þá sem eru að glíma við erfið veikindi. Laugin gæti að sama skapi nýst sem varalaug þar sem hægt væri að viðhalda hluta starfsemi sundlaugar við bilanir, viðgerðir og viðhald og þannig komið í veg fyrir að þessi vonda staða sem við stöndum frammi fyrir í dag komi upp aftur.
Tillagan og greinargerð sem henni fylgir hefur nú þegar verið send á alla bæjarfulltrúa og óskast tekin til afgreiðslu á næsta fundi bæjarstjórnar.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir
Höfundur er bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.



















Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst
Hvað er sjóveiki?
Sjóveiki er misræmi milli skynfæra líkamans sem senda boð til heilans um hreyfingu – kyrrstöðu.
Þegar einstaklingur er úti á sjó þá nema skynjarar í vökvafylltum gangi í innra eyra hreyfingu og senda boð til heilans að einstaklingur sé á hreyfingu. Augun senda hins vegar boð til heilans um að viðkomandi sé kyrr. Heilinn á erfitt með að vinna úr þessum misvísandi og ósamræmdu upplýsingum og sendir skilaboð til magans um að tæma sig – þ.e. veldur uppköstum.
Einkenni sjóveiki eru þreyta, ógleði, svimi, svitakóf og uppköst.
Góð ráð til að hindra sjóveiki:
Lyf við sjóveiki þ.e. lyf sem slá á einkennin og fást án lyfseðils í apóteki.
Önnur ráð:
Hvar í skipinu er best að vera o.fl.
Þungun:
Þungaðar konur sem þjást af sjóveiki mega nota koffinátín í litlum skömmtum en best er að ráðfæra sig við lækni eða lyfjafræðing.
Þunguðum konum er ekki ráðlagt að nota engifer þar sem það er ekki staðfest hvort það geti haft skaðleg áhrif á fóstur.