Hulda Hákon, myndlistarkona opnaði þann 27. september einkasýninguna Á Landsenda í Gallerí Kontor Hverfisgötu 16a. Þar eru ísbirnir, hafið fyrir austan land og örnefni í aðalhlutverki. Sýningin stendur til 12. október. Verkin á sýningunni eru níu og unnin á einu og hálfu ári á vinnustofu Huldu í Vestmannaeyjum. Margir voru mættir í Gallerí Kontor þegar sýningin var opnuð. Röð út á götu og átti Hulda í erfiðleikum með að komast inn.
„Við hjónin eignuðumst smá pening og vildum kaupa okkur vinnustofu. Það var allt svo dýrt hér í bænum en okkur var bent á að það væru hús í Vestmannaeyjum sem væru sennilega föl og við fundum þar vinnustofu sem hentaði okkur. Mér finnst frábært að komast úr bænum. Það gefur mér svo mikið að komast frá erlinum í Reykjavík. Í Eyjum er stutt í náttúruna og það hentar mér mjög vel að geta gengið með hundinn fjarri alfaraleið,“ segir Hulda í viðtali Morgunblaðið. Athvarfið þeirra í Eyjum er kró í Skvísusundi þar sem þau dvelja langdvölum á hverju ári.
Titlarnir á verkunum koma frá örnefnum á Austurlandi og aðallega frá miðum fyrir austan land. „Það tók mig tíma að finna nöfnin sem notuð hafa verið yfir gömul fiskimið austan við landið, en það voru sjómenn sem gáfu þeim nöfn. Rósagarðurinn er til dæmis frægur en þýskir sjómenn gáfu honum það nafn.“
Á sýningunni eru verk, lágmyndir sem unnar eru á krossvið. Ísbirnir eru þar í aðalhlutverki. „Myndefni eins og þetta hefur fylgt mér allan ferilinn. Amma sendi mér konfektkassa í jólagjöf árið 1982 þegar ég bjó í New York. Kassinn var skreyttur með Íslandskorti Guðbrands Þorlákssonar og þar eru alls kyns skepnur. Ég fór að vinna út frá myndum á því korti og hef gert síðan,“ segir Hulda við Morgunblaðið en hún hefur áður gert verk sem sýna ísbirni.
Minnist fortíðar
Bergsveinn Birgisson rithöfundur skrifar textann í sýningarskrána og er Hulda mjög ánægð skrifin. „Hér áður fyrr voru dagblöð hér á landi þó nokkur og þar störfuðu nokkrir myndlistargagnrýnendur og maður fékk því fleiri en einn dóm um sýningu sína. Núna er þetta ekki lengur þannig nema þegar ég sýni erlendis. Þá kemur kannski gagnrýni í tveimur blöðum og ég fæ allt í einu nýjan vinkil á verkin. Svo fékk ég þennan frábæra texta frá Bergsveini þar sem hann segir hluti um verkin mín sem ég hef ekkert verið að velta fyrir mér. Það er mjög gefandi,“ segir Hulda við Morgunblaðið.
Á einum stað í sýningartexta sínum segir Bergsveinn: „Ef lýsa ætti í einu orði því verkefni sem Hulda Hákon hefur lagt niður fyrir sig með sinni sköpun væri það að mínu mati að muna. Ekki aðeins speglast þetta í myndmáli sem gjarna rís upp úr goðsögnum og þjóðtrú eða fornum kortum og örnefnum (eins og hér), heldur minnist hún fortíðar þannig að skilaboðin skerpa á stöðu okkar í samtímanum, hún varpar okkur aftur í tímann um leið og hún kastar fortíðinni inn á gólf okkar, það er minnt á hringrásina eilífu en með vissu tilbrigði og ferskum blæ, verk hennar sýna leikgleði með djúpvitur skilaboð í farangrinum.“
Skráðu þig á fáðu nýjustu tilkynningar fyrst